143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna.

41. mál
[13:48]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar, þeirri þriðju í þessari lotu, frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins en hún fjallar um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipta og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna.

Vestnorræna ráðið heldur á ári hverju þemaráðstefnu og sú ráðstefna sem haldin var í janúar síðastliðnum fór fram hér á landi, á Ísafirði, og fjallaði um heilbrigðismál. Vaninn er sá að þegar Vestnorræna ráðið heldur þemaráðstefnu þá fæðast út úr því starfi nokkrar hugmyndir um hvernig hægt er að auka samstarf landanna á því sviði sem um ræðir og þessi þingsályktunartillaga er afrakstur slíkrar vinnu. Ég trúi því að á þessu ári, á meðan ég gegni formennsku í Vestnorræna ráðinu, verði mikil áhersla á að fylgja eftir þessum tillögum er varða heilbrigðismálin og þessi ráðstefna í janúar hefur hlotið þau ummæli að hún hafi verið virkilega nytsamleg og leitt fram mörg sjónarmið og margar ályktanir sem sýna okkur fram á að hægt er að ná árangri með auknu samstarfi landanna, bæði varðandi það að ná hagræðingu og eins að efla heilbrigðisstarfsemi í öllum löndunum þremur. Við munum í framhaldinu, verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt hér á Alþingi, eiga samráð við heilbrigðisráðherra allra landanna þriggja um það hvernig við getum með sem skjótvirkustum hætti hrundið þessum tillögum í framkvæmd.

Fyrir liggur skýrsla og samantekt á þemaráðstefnunni sem haldin var í janúar. Um 40 aðilar, úr pólitíkinni, úr fræðasamfélaginu og sérfræðingar í heilbrigðismálum, tóku þátt í ráðstefnunni á Ísafirði, um 20 manns sem tóku þar til máls með innlegg í þessa umræðu. Þeir sem tóku þátt í ráðstefnunni voru sammála um að mjög mikilvægt væri að styrkja vestnorræna samvinnu á sviði heilbrigðismála og það mundi gagnast öllum löndunum þremur.

Við eigum það sameiginlegt að öll þessi þrjú lönd eru strjálbýl. Þetta eru frekar litlar þjóðir en engu að síður með mikinn metnað til að gera vel. Og við eigum marga góða sérfræðinga og gott heilbrigðisstarfsfólk og marga góða aðila sem hafa lagt margt gott til. Við teljum algjörlega ljóst að hægt sé að vinna þéttar saman á milli þessara þriggja landa en þá þarf að víkja burt hindrunum. Viljinn er til staðar en það sem vantar kannski upp á er að fólk kynnist betur og þessi tillaga hefur það meðal annars í för með sér, að því er við teljum, að aukið samstarf verði raunveruleiki, betri miðlun upplýsinga eigi sér stað, betri miðlun þekkingar og reynslu öllum til gagns. Þetta samstarf gæti jafnframt falið í sér efnahagslegan ávinning vegna aukinnar hagkvæmni og styrkt svæðisbundna samvinnu.

Við þekkjum að mikil reynsla er til staðar innan kerfisins í öllum þremur löndunum og við teljum að með formlegum starfsmannaskiptum yrði miðlun þekkingar og reynslu innan vestnorræna heilbrigðiskerfisins tryggð. Á sama tíma væri stuðlað að uppbyggingu tengslanets og persónulegra kynni milli vestnorrænna heilbrigðisstarfsmanna. Í ályktuninni er skorað á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um menntun heilbrigðisstarfsmanna í löndunum þremur og að tryggja möguleika á starfsmannaskiptum milli landanna. Jafnframt að kannaðir verði möguleikar á því að þróa frekara samstarf á sviði geðlæknisþjónustu, bæði hvað varðar menntun starfsmanna og meðferð fyrir sjúklinga.

En það voru nokkrar höfuðályktanir sem voru meginniðurstaðan af ráðstefnunni á Ísafirði og í raun má segja að tvær þeirra birtist okkur hér, þ.e. varðandi menntunina og starfsmannaskiptin og jafnframt aukið samstarf á sviði geðlæknisþjónustu. En það er önnur tillaga sem ég mun ræða hér á eftir og við leggjum fram. Jafnframt var talað sérstaklega um brjóstakrabbamein og samstarf á því sviði og einnig um sjúkraflutninga vegna þess að við eigum öll við það að etja að vera með stórt hafsvæði sem við þurfum að gæta að. Í sumum tilvikum gæti verið betra að nýta krafta hvert annars og þá stoð- og grunnþjónustu sem er til staðar í löndunum þremur frekar en að fljúga með sjúklinga, eins og stundum er gert, frá Færeyjum og Grænlandi til Danmerkur. Þannig að þetta er eitthvað sem við teljum brýnt að skoða og var niðurstaða ráðstefnunnar.

Jafnframt kom fram á ráðstefnunni áhugi á að skoða þann möguleika að eiga samstarf varðandi innkaup lyfja. Það er því margt nytsamlegt að finna í þessari skýrslu og ég veit til þess að hún hefur nú þegar lent á borði heilbrigðisráðherra. Ég vonast svo sannarlega til þess að heilbrigðisráðherrar landanna þriggja eigi með sér gott samstarf.

Herra forseti. Ég vil að lokum óska eftir því að þessari tillögu verði vísað til utanríkismálanefndar.