143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða.

42. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég fór yfir áðan eru það markmið Vestnorræna ráðsins að vinna saman að vestnorrænum hagsmunum, meðal annars að standa vörð um auðlindir og menningu landanna. Þetta er því auðvitað hluti af því sem við erum að skoða. En eins og ég sagði er þessi ályktun upphaf og í rauninni hvatning til ríkisstjórnanna að styrkja samstarf milli landanna þriggja til þess að slík stefna líti dagsins ljós.

Ég geri ráð fyrir því að þeirri undirbúningsvinnu sem við í Vestnorræna ráðinu erum að vinna muni verða lokið vonandi fyrir þemaráðstefnuna sem verður haldin í Færeyjum í janúar. Þá verðum við komin með eitthvað á blað sem Vestnorræna ráðið mun ræða, en það eru auðvitað ríkisstjórnirnar sem fara með utanríkismálin og munu klára það, miðað við þessa þingsályktunartillögu, að vinna að sameiginlegri vestnorrænni stefnumörkun.