143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða.

42. mál
[14:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nýta tækifærið og þakka fyrir þessa umræðu og þessar aðgerðir. Það er mjög forvitnilegt að fylgjast með þessu og sjá þetta verða að veruleika. Við þetta tækifæri langar mig að minna á að Færeyjar sýndu fádæma óeigingirni eftir hrun á Íslandi og lánuðu okkur Íslendingum mikið fé á þeirra mælikvarða sem undirstrikar það sem er mjög augljóst að þessar þrjár þjóðir eru miklar vinaþjóðir. Það er óþarfi að taka eina umfram aðra, en sem smáþjóðir er mjög mikilvægt að við stöndum saman, mjög raunhæft að við stöndum saman. Við eigum það öll sameiginlegt að vera smáríki í augum allra hinna.

Þá langar mig að minnast sérstaklega á það að Ísland er stórríki við hliðina á Grænlandi og Færeyjum. Í allri okkar aðkomu að þessum tveimur þjóðum, Grænlandi og Færeyjum, skulum við muna að við erum litli karlinn í heiminum og eigum að koma fram við þessar þjóðir eins og við mundum vilja að aðrar þjóðir kæmu fram við okkur, ef ekki betur.

Það er ekki fleira sem ég vildi segja nema bara þakka aftur fyrir þessa mjög þörfu og góðu umræðu.