143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland um námskeið fyrir rithöfunda.

43. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sem felur í sér að Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að koma á samstarfi við stjórnvöld í Færeyjum og á Grænlandi um skipulagningu námskeiða fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í samvinnu við rithöfundasambönd landanna með það að markmiði að styrkja ritlist og sagnahefð í löndunum.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni um svipuð málefni í dag er það eitt af markmiðum vestnorrænnar samvinnu að efla menningarleg samskipti og tengsl þessara þriggja þjóða. Við eigum mjög margt sameiginlegt, þjóðirnar þrjár, þegar kemur að ritlist og sagnahefð, en við þekkjum það að grænlenskir, færeyskir og íslenskir rithöfundar hafa lagt mikið af mörkum til þess að efla og auka skilning á menningu landanna þriggja. Það er mikilvægt að við höldum því starfi áfram, tungumálin okkar eru mikilvæg, það er ekki margir sem tala íslensku, færeysku eða grænlensku en þrátt fyrir það er gríðarlega mikilvægt að halda tungumálunum við og það gerum við best með því að efla ritað mál, er það ekki?

Þessi tillaga var fyrst samþykkt 6. september 2012 á ársfundi Vestnorræna ráðsins í Færeyjum þannig að hún er orðin ársgömul, en engu að síður er mikilvægt að henni verði hrint í framkvæmd. Við teljum að með því að standa fyrir skipulagningu þessara námskeiða getum við rutt brautina fyrir upprennandi rithöfunda og jafnframt styrkt hvert annað. Við teljum einfaldlega mikilvægt að það verði aukin samvinna á því sviði milli landanna, menn geti skipst á skoðunum og deilt reynslu sinni og hvatt hver annan áfram. Þess vegna eru stjórnvöld landanna hvött til að beita sér í málinu og ég vonast til þess að þingsályktunartillagan fái góðar undirtektir og óska eftir því að henni verði vísað til utanríkismálanefndar.