143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

aukin skattheimta.

[15:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ágæta fyrirspurn. Það er mjög mikilsvert að ræða akkúrat þessa þætti. Sjálfur var ég í heimsókn á suðurfjörðum Vestfjarða í síðustu viku og hitti þar fyrirtæki sem er burðarfyrirtæki í litlu sjávarplássi. Skilaboðin þar voru þessi: Hefðum við ekki brugðist við með þeim hætti sem við gerðum í sumar og létt þeim byrðum sem lagðar voru á minni fyrirtæki og meðalstór væri það fyrirtæki gjaldþrota. Það fyrirtæki væri þá til umfjöllunar látlaust í fjölmiðlum vegna þess að byggðarlagið væri í uppnámi. Þetta fyrirtæki er sem sagt lykilfyrirtæki í sínu plássi.

Sömu sögu hef ég heyrt á ferðum mínum hringinn í kringum landið, að nákvæmlega það sem við gripum hér til í sumar, að létta byrðarnar, létta þeim af fyrirtækjum sem gátu ekki staðið undir þessu gjaldi — þessari vegferð sem fyrrverandi ríkisstjórn var á — hafi einmitt gert þessum fyrirtækjum kleift að starfa áfram og vonandi í framtíðinni að verða það öflug að þau geti snúið varnarbaráttunni við og farið að sækja fram í fjárfestingar, í fjölgun starfa og að byggja upp viðkomandi byggðarlag. Það var nákvæmlega það sem við vorum að gera.

Ef hv. þingmaður vill kalla það brauðmolahagfræði er það ekki verri hagfræði en hver önnur, hún virkar allavega vel í þessum minni sjávarbyggðum landsins.

Enn og aftur verðum við að horfa til vanda hvers og eins og til þess hversu ólíkur og fjölbreyttur sjávarútvegur er og fyrirtækin margbreytileg. Það þýðir ekki að taka einhver fjögur, fimm fyrirtæki sem hagnast vel sem betur fer — sum hver vegna starfsemi sinnar erlendis og önnur af einhverjum öðrum ástæðum — og halda því fram að leggja eigi svo og svo miklar byrðar á allan sjávarútveginn og öll fyrirtæki landsins að þau standi ekki undir því.

Ég held að það sem við gerðum í sumar hafi skilað um það bil nákvæmlega sömu veiðigjöldum til ríkissjóðs og fyrrverandi ríkisstjórn hafði (Forseti hringir.) ætlað sér en niðurstaðan er sú að fyrirtækin geta (Forseti hringir.) greitt ...