143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

aukin skattheimta.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra langt svar en hann svaraði í engu spurningu minni um hvort ekki kæmi til álita að leggja á auðlegðarskatt í einu formi eða öðru eða aðra skatta á þá sem mest hafa á milli handanna til að leysa úr brýnni fjárþörf heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Um öll lönd er vaxandi skilningur á því að þeir ofurríku, þetta 1% sem oftar er nefnt, verði að leggja meira af mörkum til samfélagsins. En mér þykir hins vegar ljóst á fyrstu verkum Framsóknarflokksins í ríkisstjórn að hann vilji frekar berjast gegn þeirri þróun og verja auðmenn og sægreifa en að standa með almenningi í landinu.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Í ljósi þessara staðreynda, í ljósi þess að það er vaxandi skilningur á þessu um allan heim, í ljósi þess að í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er álagning á auðlegðarskatt á Íslandi tekin sem gott dæmi um leið, vissulega ekki gallalausa en þó góða leið til þess að láta þá sem mest hafa á milli handanna borga meira, þetta ríkasta 1%, vill Framsóknarflokkurinn þá ekki prófa að vera félagshyggjuflokkur svona einu sinni?