143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

réttur til húsaleigubóta.

[15:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Verið er að fara yfir lögin um húsaleigubætur. Það er í raun verið að fara yfir almennt hvernig við viljum hafa stuðningi við húsnæðismál í samfélagi okkar háttað. Fram hafa komið margvíslegar ábendingar um að það þarf að yfirfara mjög vel það sem snýr að námsmönnum. Ég vænti þess að við höldum áfram að vinna vel að því. Hins vegar get ég ekki sagt hér nákvæmlega hvenær við munum leggja fram frumvarp á Alþingi en það eru margvíslegar athugasemdir sem hafa borist. Meðal annars munum við horfa til niðurstöðu úrskurðarnefndar varðandi þetta mál og skoða þá þætti sem hv. þingmaður nefndi hér, þá sérstaklega það sem snýr að stjórnarskránni.