143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

stimpilgjöld.

[15:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir að leggja fram fyrirspurn um stimpilgjöld til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, en eins og allir vita eru stimpilgjöld skattur sem lagður er á útgáfu margvíslegra skjala, svo sem afsöl vegna fasteigna og öll helstu lánaskjöl. Á Alþingi í sumar var boðað að afnema ætti stimpilgjöld vegna fasteignakaupa. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hæstv. fjármálaráðherra út í það í umræðu um stimpilgjöld, en þegar vel er að gáð og betur er farið yfir frumvarpið er nú ekki allt sem sýnist í því. Til dæmis er þar boðuð 100% hækkun á stimpilgjöldum af fasteignamati fasteignar hvað varðar afsöl við íbúðakaup. Í umræðu um skattalækkun hjá hæstv. fjármálaráðherra, um 5 milljarða kr. lækkun sem auki ráðstöfunartekjur heimilanna, kemur þá enn einu sinni fram í þessu þriðja frumvarpi sem flutt var á þeim degi að hér er heldur betur verið að seilast ofan í vasa þeirra sem eru að kaupa húsnæði og nú á að fara að hækka mjög stimpilgjöldin.

Það skýtur svolítið skökku við miðað við það sem boðað var. Það virðist vera lenska hjá hæstv. ríkisstjórnarflokkum; það sem þeir sögðu fyrir kosningar er einskis vert og ber ekki að virða það núna þegar komið er til Alþingis.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún sé sammála aukinni skattheimtu á þá sem eru að kaupa sér húsnæði, þ.e. 100% hækkun á stimpilgjöldum þegar um einstakling er að ræða og meira þegar um lögaðila er að ræða. Það er spurning, virðulegi forseti, sem ég hygg að almenningur í landinu sem hugar að íbúðakaupum o.fl., þurfi að hafa í huga og því er nauðsynlegt að vita hver hugur hæstv. húsnæðismálaráðherra er í þeim efnum.