143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

stimpilgjöld.

[15:26]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef talað fyrir því að afnema stimpilgjöld og þá sérstaklega horft til húsnæðiskaupa, kaupa á íbúðarhúsnæði. Þótt verið sé, eins og hv. þingmaður bendir á, að hækka það sem snýr að afsölum í þessu frumvarpi frá hæstv. fjármálaráðherra er hins vegar verið að lækka stimpilgjöldin þegar kemur að lánsskjölum. Eitt af því sem Alþingi gæti skoðað væri hvernig betur væri hægt að koma til móts við fyrstu kaupendur og hvort væri í rauninni hægt að ganga lengra þegar kemur að þessu frumvarpi. Hins vegar vil ég benda á að eins og ég hef skilið það er frumvarpið að mestu leyti í samræmi við tillögur starfshóps sem ráðherra sem sat áður yfir þessum málaflokki skipaði. Það er að vissu leyti líka tiltekt á því sem snýr að stimpilgjöldunum og er verið að reyna að einfalda fyrirkomulagið og fella út stimpilgjöld á ýmsum þjónustuþáttum eða ýmsum aðgerðum þar sem hafði jafnvel ekki verið möguleiki á því að innheimta stimpilgjöld eða innheimtan ekki verið nógu skilvirk. Þetta er eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur útskýrt það.

Þetta var aðeins rætt í umræðunni um Íbúðalánasjóð. Það gæti verið ákveðin áhætta sem fælist í því þar sem þarna er verið að lækka stimpilgjöld á lánsskjöl, það gæti aukið uppgreiðsluáhættuna hjá sjóðnum. Ég held að það sé bara eitt af því sem er mikilvægt fyrir sjóðinn að gæta að, áhrifunum sem þetta getur haft á stöðu sjóðsins og bregðast síðan við í framhaldinu.