143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

stimpilgjöld.

[15:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í anda óskar sem hefur komið hér fram um málefnalega umræðu vil ég endilega hvetja til þess í þessu máli. Eins og ég benti á þá er verið að lækka stimpilgjöld þegar kemur að lánsskjölum. Hins vegar er náttúrlega hluti af því að fara með mál í gegnum þinglega meðferð að skoða með gagnrýnum huga hvað væri hugsanlega hægt að gera betur. Eitt af því væri t.d. að koma betur til móts við þá sem eru að kaupa eign í fyrsta skipti.

Síðan ítreka ég bara að þetta var að mestu leyti, eins og mér skilst, tillaga sem var unnin í samræmi við nefnd sem var skipuð á vegum fyrri ráðherra. Ég verð að segja að ég er hálfhissa á því að fyrrverandi stuðningsmaður ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna skuli vera svona hissa á þessu. Eitt af því sem við ætlum hins vegar að gera er að halda áfram að leita leiða til að efla hagvöxtinn hér á landi þannig að við aukum tekjur ríkissjóðs og getum þá farið að skera niður fleiri gjaldtökur hjá ríkinu.