143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

ræktunartjón af völdum álfta og gæsa.

[15:31]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Nú er tjón af völdum ágangs álfta og gæsa tilfinnanlegt í ræktunarlöndum, uppskerutap að vori vegna vorbeitar gæsa er víða mjög verulegt og að sama skapi er ágangur álfta og gæsa í kornökrum að sumri og hausti verulegt vandamál og hefur víða gert ræktun ómögulega. Ítrekað hefur verið ályktað um þetta vandamál og ég veit að margoft hefur verið fundað um það með sitjandi umhverfisráðherrum á hverjum tíma sem undantekningarlaust hafa sýnt málinu skilning. Málið hefur ekki komist áfram og engar aðferðir hafa verið mótaðar, oft beinlínis vegna andstöðu einstakra stofnana og skorts á vilja til að viðurkenna vandamálið.

Þá er þekkt að umhverfisyfirvöld í Danmörku, Noregi og Skotlandi hafa sýnt samsvarandi vandamáli í sínum löndum mikinn skilning og hafa sameinast um rannsóknarverkefni er eiga að meta vaxandi stofnstærð og meta til hvaða viðbragða hægt er að grípa til að lágmarka tjón af völdum ört stækkandi stofna þessara nefndu fugla. En þetta er samspil margra þátta og inn í það blandast ekkert síður aukin kornrækt hér á landi sem getur líka verið hluti af þeirri skýringu að stofnarnir stækki, hlýnandi veðurfar o.s.frv.

Grípa má til margra aðgerða, bæði vor og haust, en til þess þarf atbeina yfirvalda og er tímabært að bregðast við háværu kalli um aðgerðir. Því vil ég spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra: Hyggst núverandi ráðherra bregðast við á einhvern hátt og sýna því skilning með vaxandi stofnstærð álfta og gæsa? Er ráðherrann tilbúinn til að undirbúa aðgerðir til að bregðast við því og hefur ráðherra einhver hug á því að taka þátt í samstarfi nágrannaríkja okkar um rannsóknir og aðgerðarverkefni er tengjast vaxandi stofnstærð?