143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

ræktunartjón af völdum álfta og gæsa.

[15:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að ágangur álfta og gæsa hefur stóraukist á ræktunarlöndum og víða hefur orðið mjög mikið fjárhagslegt tjón hjá bændum. Málið hefur verið í skoðun, eins og kom fram, um alllangt skeið og margar hugmyndir settar á loft en engar aðgerðir verið mótaðar, ekki enn. Sá sem hér stendur er vel meðvitaður um þennan vanda og telur mikilvægt að leitað verði leiða til að vinna að því að draga úr tjóni bænda af völdum gæsa og álfta í ræktunarlöndum.

Vinna er farin af stað í ráðuneytinu í samráði við hagsmunaaðila til að fara yfir þau mál og taka saman upplýsingar sem liggja nú þegar fyrir, greina umfang og eðli áhrifa af gæsum og álftum og meta hið sannanlega tjón sem bændur verða fyrir. Bændasamtökin, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun ásamt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þurfa að koma að málinu og finna sáttaleið.

Samkvæmt 3. gr. laga um vernd og friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum hefur Umhverfisstofnun umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Umhverfisstofnun kemur til með að leiðbeina um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Bændasamtökin.

Sá sem hér stendur telur að gera þurfi faglegt mat á tjóninu og að sátt sé um þær aðferðir sem samrýmast eðlilegri umgengni dýrastofna miðað við árstíma og tek ég undir með hv. þingmanni að skoða þarf vandlega hvaða aðgerðum má beita, fæliaðgerðum, hugsanlega með takmörkuðum skotveiðum til að koma til móts við þarfir landeigenda sem verða sannanlega fyrir tjóni. Það er alla vega óviðunandi fyrir bændur að ekki sé tekið á málum í þeim efnum í samræmi við lög, en yfirsýn hefur vantað yfir hvaða gögn liggja fyrir og ef til vill hefur skortur á gögnum hamlað því að hægt sé að styðjast við upplýsingar um sannanlegt tjón. Ég legg því mikla áherslu á að þeim gögnum verði safnað saman áður en menn grípa til einhverra aðgerða.