143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

ræktunartjón af völdum álfta og gæsa.

[15:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um samstarf við nágrannaríki er í bígerð að sækja um aðild að þverfaglegu rannsóknarverkefni í samvinnu við umhverfismála- og landbúnaðaryfirvöld í Noregi. Umsóknin verður send inn í þessari viku og sótt verður um um 5 milljónir norskar krónur, þ.e. um 100 milljónir íslenskar krónur. Ætlunin er að leggja út vettvangsrannsóknir af völdum stöðum á Íslandi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun formlega leggja umsókninni lið með bréfi sem dregur fram að sú vinna sé mjög brýn fyrir Ísland og fyrir vinnu íslenskra stjórnvalda hvað varðar samspil gæsa, álfta og landbúnaðar.

Við munum lýsa því yfir með bréfi að sú vinna sé einnig mikilvæg fyrir íslenska hagsmuni og bjóða fram þátttöku í verkefninu, m.a. með aðgengi að gögnum og þátttöku í fundum og slíku. Að umsókninni standa norska rannsóknarráðið og norsk náttúrurannsóknastofnun en Ísland er með umsækjendur, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands, og jafnframt leggja Bændasamtök Íslands og bændasamtök Noregs verkefninu lið. Ég er sem sagt tilbúinn að skoða þessa hluti í áframhaldinu hvernig sem allt veltur og gengur með umsóknina.