143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[16:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að endurskoða þarf þessi lög. Það er nefnilega ekki alveg nóg að endurskoða eitt og eitt ákvæði vegna þess að grunnurinn í þessum lögum er skakkur, að mínu viti. Þetta eru afar íþyngjandi lög, ekki bara fyrir landeigendur (SSv: En fyrir náttúruna?) — fyrir sveitarfélögin. Á tyllidögum tölum við alltaf um stjórnarskrána og mikilvægi hennar og við sökum hvert annað um að brjóta stjórnarskrána sem er mesti glæpur sem nokkurn tímann hefur verið framinn.

Svo hefur maður lært það hér á tiltölulega stuttum ferli í pólitík að þegar menn ætla að ná pólitískum markmiðum skiptir þessi stjórnarskrá bara engu máli, því miður, skiptir engu máli og hefur aldrei gert það. Þetta snýst allt um einhver pólitísk markmið.

Hér er með þessum lögum gengið mjög á skipulagsvald sveitarfélaga. Við munum umræðu um flugvöllinn í Reykjavík. Hvað þýðir friðlýsing? Friðlýsing þýðir takmörkun á skipulagi sveitarfélaga. Samkvæmt þessum lögum hefur ráðherrann vald til að friðlýsa allt Ísland, þess vegna. Hann getur friðlýst þennan flugvöll, talið hann stríðsminjar. Hvað ætlar Reykjavíkurborg að gera þá? Hún getur ekkert gert. (Gripið fram í: Þetta er vitleysa.) Nei, þetta er nefnilega ekki vitleysa, þetta er hægt og ráðherra hefur rétt til að fara í eignarnám sisona til að friðlýsa og friða svæðið eins og ekkert sé. (Gripið fram í: Hvað … að gera?) Ég veit það ekki, hann hefur heimildina í lögunum. Það er áhyggjuefnið. Ætlar hann svo að gera það? Ég er alveg viss um að (Forseti hringir.) margir ráðherrar á öðrum væng stjórnmála hér mundu gera það, já. (Forseti hringir.) Ég segi ekki meir.