143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

54. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir hér um að til standi að koma á fót samráðsvettvangi Umhverfisstofnunar, landlæknis og sveitarfélaganna. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því í mínu seinna innleggi hvað hann sjái fyrir sér í því í tímasetningum, hvort til standi að koma slíkum vettvangi á laggirnar bara núna á haustdögum, hvort farin sé af stað einhver vinna við að undirbúa það. Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé nú ekki í takt við það sem hann hefur sjálfur verið að ræða um, um gildi lýðheilsu og forvarna til að bæta almenna heilsu landsmanna og byrgja brunna áður en börnin detta ofan í þá — ég hefði að minnsta kosti talið að vinna á borð við þessa væri forgangsatriði; ég nefndi bara nokkra skaðvalda, hæstv. ráðherra kom inn á tóbakið, ég nefndi myglusveppinn og fleira sem eru hlutir sem hægt væri að koma í veg fyrir, geta valdið ómældum skaða og eru lúmskir skaðvaldar í okkar daglega umhverfi, hvort hæstv. ráðherra geti ekki verið sammála mér um að þetta eigi að vera í takt við þá stefnu sem boðuð hefur verið um áherslu á forvarnir og lýðheilsu, þá ættu verkefni á borð við þetta að vera forgangsmál.

Það segi ég ekki síst af því að okkar daglega umhverfi hefur mikil áhrif á heilsufar en oft reynist það vandkvæðum bundið vegna þess að þetta kallar á svo mikið samráð aðila — til að mynda er verið að ræða þarna um loftgæði í skólum sem reknir eru af sveitarfélögum svo að dæmi sé tekið þannig að ég er alveg sammála því að þau þurfa að koma að þessu. En þó það geti verið flókið að efna til slíks samráðs þá getur það væntanlega skilað talsverðum árangri.