143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:38]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég er Hafnfirðingur sjálfur. Sem slíkur hefur mér alltaf þótt það hafa verið óheillaspor þegar starfsemin var lögð niður í St. Jósefsspítala. Ég fagna þeim vilja sem ráðherra sýnir til að koma starfsemi í einhverju formi þar á aftur. Það vekur hjá mér vonir um um að þetta mál sé að komast í betri farveg.

Það er eitt sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu máli en það er að fá aðkomu Hafnfirðinga að ákvarðanatöku í málinu þegar að því kemur. Þá á ég ekki einungis við bæjarstjórnina heldur líka venjulega Hafnfirðinga — ekki það að bæjarstjórnin sé ekki venjuleg. Það er vegna þess að þetta mál er algert hjartans mál fyrir Hafnfirðinga. Ég held að það séu flestir sammála um það að Hafnfirðingar hafi ekki farið vel út úr þessu og ég fagna því að málið sé að komast í betri farveg.