143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég fagna því gríðarlega að heyra að verið sé að leita leiða við að finna húsnæðinu nýtt samfélagslegt hlutverk eða nýtt hlutverk. Ég mundi gjarnan vilja fá að vita hvaða leiða er verið að leita. Hverjar eru lausnirnar?

Persónulega sé ég enga pólitík í þessu máli. Mér finnst þetta bara alls ekki pólitískt mál. Mér finnst þetta vera mál sem þarf virkilega að finna lausnir á. Ég skal bara bjóða hæstv. heilbrigðisráðherra í kaffi, ég bý beint á móti spítalanum, og við getum farið og skoðað húsnæðið. Þá sér hann að það er þyrnir í hjarta Hafnfirðinga á hverjum einasta degi að keyra þarna fram hjá, af því húsnæðið er verulega farið að láta á sjá. Ekki þar fyrir að einnig er gaman að sjá að kvikmyndagerðarmenn hafa nýtt sér húsnæðið. Í sumar var verið að taka upp „zombie“-mynd, sem gerði hverfið mjög líflegt. En það var í viku. Við viljum fá starfsemi í húsið 365 daga á ári.

Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir því að fá húsið til eignar. Eins og hæstv. velferðarráðherra kemur inn á er fasteignamat á húsinu upp á tæpan hálfan milljarð. Ég get ekki séð í skjótu bragði að Hafnarfjarðarbær kaupi fasteignina af ríkinu, en við höfum svo sannarlega óskað eftir að fá það til umráða af því við erum með margar tillögur um að finna því verðugt samfélagslegt hlutverk. Það hefur verið leitað til bæjarbúa eftir hugmyndum og óskað eftir slíku á heimasíðu bæjarins.

Ég vil samt minna þingmenn á að ég er hér sem þingmaður þótt ég sitji líka í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það er bara einkar skemmtileg tilviljun. Ég vil endilega brýna fyrir ráðherra (Forseti hringir.) að fá húsinu hlutverk og það strax.