143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

húsnæði St. Jósefsspítala.

87. mál
[16:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég heyri hljóðið í fólki og hef heyrt lengi, í það minnsta í nokkra mánuði eða frá því ég tók við þessu embætti og tók við þessu verkefni sem í rauninni hefur staðið fyrir dyrum allt frá því spítalanum var lokað. Hér er nefnt að Hafnarfjörður vilji ekki kaupa húsið. Þá spyr maður á móti hvort það sé leyfi til að bærinn vilji leigja það o.s.frv. Þetta eru atriði sem við getum tekið upp til viðræðu við bæjarstjórnina.

Ég ítreka að á þeim árum frá því spítalanum var lokað hefur verið, eftir því sem mér er sagt, leitað allra leiða til að koma einhverri starfsemi fyrir þarna. Ég get svarað bara fyrir mig að frá því ég kom að málinu hef ég verið að ýta að stofnunum og fólki, þar sem verið er að gera einhverjar breytingar, hvort ekki sé hægt að koma starfseminni fyrir í St. Jósefs. Ég ætla að nefna að það var verið að auglýsa eftir húsnæði fyrir Barnaverndarstofu. Þá hefði ég talið að menn gætu boðið fram svona krafta. Ríkið stendur með þetta húsnæði. Það má vel leita leiða til að koma þessu þarna fyrir.

Ég þakka gott boð í kaffi en drekk það því miður ekki. Mætti ég þá biðja um vatn í staðinn, íslenska góða, hreina vatnið? Skal þiggja það með þökkum og lít einhvern tímann við.

Þetta er sameiginlegt hagsmunamál eigenda hússins, hvoru tveggja Hafnfirðinga sem eiga 15% í þessum byggingum og ríkissjóðs eða landsmanna sem eiga 85%. Ég vil ítreka að þó ekki væri nema af virðingu við sögu þessa húss ber okkur skylda til að finna því aðra stöðu en það hefur í dag. Það er að drabbast niður eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi. Það er engum til sóma.