143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

55. mál
[16:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka ágæta fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda Katrínar Jakobsdóttur. Varðandi ritið Hreint loft — betri heilsa, þar sem fjallað er um helstu mengunarvalda lofts bæði innan dyra og úti á Íslandi, magn þeirra, áhrif þeirra á heilsu, vöktun og aðgerðir til að stemma stigu við skaðsemi þeirra, vil ég segja að í ritinu er að finna mjög gagnlega heildarúttekt á loftgæðum bæði utan dyra og innan ásamt fjölmörgum tillögum til úrbóta. Ritið gagnast í raun ekki bara stjórnvöldum heldur einnig öllum þeim sem vilja kynna sér þessi mál.

Upplýsingarnar og tillögurnar sem fram koma í Hreint loft — betri heilsa, er að mínu mati vandaður grunnur til að byggja á við gerð aðgerðaáætlunar sem miðar að bættum loftgæðum. Þessi málaflokkur er þverfaglegur eins og komið hefur fram fyrr í umræðunni í dag og snertir umhverfismál, heilsu og heilbrigðismál. Því er í undirbúningi að umhverfis- og auðlindaráðuneytið og velferðarráðuneytið komi í sameiningu á laggirnar samráðshópi sem hefði það verkefni að gera slíka aðgerðaáætlun, leggja mat á kostnað sem því fylgir og síðan verkáætlun eða að fylgja áætluninni eftir.

Ég tel afar mikilvægt að tryggja loftgæði hér á landi og að almenningur fái góðar og nauðsynlegar upplýsingar um þessi mál. Það er þó rétt að nefna að við höfum tekið umræðu hér nokkrum sinnum á liðnum árum um hvernig loftgæðum er háttað. Hv. þingmaður, fyrrverandi ráðherra, þekkir það að á Íslandi eru eldgos og jökulvötn þar sem oft er verulegt magn af svifryki. En við getum hins vegar brugðist við í borgum og bæjum þar sem svifryk verður til af mannavöldum. Við þurfum auðvitað að bregðast við því. En sums staðar á landinu er loftmengun aftur á móti á tímabilum miklu, miklu meiri og skemmtilegt dæmi er um að settur var upp núllstillir, loftgæðamælir við Alviðru undir Ingólfsfjalli á sínum tíma en hann var tekinn niður vegna þess að hann mældi alltaf langt, langt yfir öllum heilsumörkum þegar aur frá Hagavatni og Sandvatni blés fram.

Ég vil einnig nefna í þessu svari frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frumvarpið sem verður lagt fram á næstu dögum felur meðal annars í sér innleiðingu á tilskipun 2008 frá Evrópusambandinu um loftgæði og hreinna loft í Evrópu. Markmið tilskipunarinnar er meðal annars að meta loftgæði, afla upplýsinga um loftgæði og vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum ásamt því að hafa eftirlit með langtímaframvindu og bættum loftgæðum svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu gerðar aðgengilegar almenningi eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á.

Jafnframt er markmið tilskipunarinnar að viðhalda loftgæðum þar sem þau eru mikil en bæta ella þar sem þau eru lakari, með þeim fyrirvara sem ég nefndi áðan að stundum ráðum við hreint ekki við náttúruöflin á Íslandi. Í því skyni að vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum og til að hafa eftirlit með framvindu á bættum loftgæðum er mikilvægt að afla upplýsinga, meta loftgæði, setja upp og reka mælistöðvar og tryggja að upplýsingar um loftgæði séu aðgengilegar almenningi á almennum vefsíðum þar sem menn geta leitað eftir þeim. Um þetta allt saman er kveðið á um í áðurnefndu frumvarpi. Þar kemur meðal annars fram að Umhverfisstofnun skal líka halda bókhald yfir losun tiltekinna efna sem menga andrúmsloftið, setja fram losunarspá og reka loftgæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð og skulu heilbrigðisnefndir einnig hafa aðgang að því kerfi og fylgja eftir mengunarvörnum.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti í reglugerð sett nánari ákvæði um losunarbókhald fyrir tiltekin loftmengunarefni, mat á losun loftmengandi efna, losunarspá, varnir gegn loftmengun þar sem meðal annars koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði og mengandi efni og losun þeirra út í andrúmsloftið, aðgerðaáætlanir, sem einmitt voru nefndar í hinu ágæta riti, og upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings varðandi þau loftgæði, svo og skyldu starfsleyfishafa til að veita þeim sem eftirlit hafa með ákvæðum starfsleyfis upplýsingar um losun mengandi efna og loftgæði og framsetningu upplýsinga. Ég stefni að því að setja nýja loftgæðareglugerð strax og frumvarpið verður að lögum þar sem tekið er á þessum þáttum málsins.

Við munum því sjálfsagt geta rætt þetta aftur þegar frumvarpið kemur fram en í raun og veru er hluti af því sem fram kemur í þessu riti nokkur viðbrögð umhverfisráðuneytisins sem koma beint fram í frumvarpinu.