143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

55. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Vissulega er það rétt að með frumvarpinu, sem er að einhverju leyti endurflutt, er brugðist við einhverjum af þeim tillögum sem hér eru lagðar til. Að sjálfsögðu er það rétt sem hæstv. ráðherra nefnir: Við allt verður ekki ráðið, hvorki eldgos né jökulvötn. Svo erum við líka svo heppin að hafa sterkan vind hér á eyjunni þannig að það vegur nú upp á móti. En það er margt sem þarna kemur fram sem snýr til dæmis að inniloftinu sem við erum kannski síður meðvituð um.

Ég bíð að sjálfsögðu eftir að sjá frumvarp hæstv. ráðherra. Mig langar þó að inna hann sérstaklega, eins og ég nefndi hér áðan, eftir rannsóknum á brennisteinsvetni, hvort hann sjái fyrir sér — nú vitum við að fjármagn til rannsókna er fyrst og fremst innan háskólastofnana og í samkeppnissjóðum og þeir hafa því miður verið skertir þannig að úr minna er að moða þar — að ráðuneytið gæti með einhverjum hætti stuðlað að þeim í ljósi aukinnar áherslu á jarðvarmavirkjanir og ónógrar vitneskju um áhrif brennisteinsvetnis á heilsu fólks.

Sér hæstv. umhverfisráðherra fyrir sér einhverjar leiðir til að stuðla að slíkum rannsóknum, er hann reiðubúinn til að skoða slíkar leiðir?