143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

viðbrögð við ritinu Hreint loft -- betri heilsa.

55. mál
[16:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég náði nú ekki að koma því að í tímarammanum áðan að eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi væru ákveðnar tillögur, bæði til úrbóta og framkvæmda, nefndar í þessu riti sem og hugsanlega verkefni sem menn geta sett af stað. Af því að hv. þingmaður nefndi hér jarðvarmavirkjanir tek ég undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda í því að við vitum miklu minna um áhrif jarðvarmavirkjana en vatnsaflsvirkjana svo að dæmi sé tekið. Jarðvarmavirkjanir eru heldur ekki undir sama hatt settar. Til að mynda er mun meira brennisteinsvetni á Hellisheiði en í öllum öðrum jarðvarmavirkjunum á landinu, þykist ég fara rétt með. Þetta er nú svona alla vega.

Til að mynda hefur verið skoðað, og hefur verið á verkefnaáætlun hjá ráðuneytinu, að koma af stað undirbúningi rannsóknar á langtímaáhrifum brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu, ég held að það væri mjög áhugavert að kanna það. Við þekkjum það sums staðar annars staðar í heiminum, það væri gaman að skoða það í heild sinni.

Varðandi inniloftið hefur verið unnið að því að styrkja samspil milli reglugerða á sviði hollustuhátta og byggingamála er varðar inniloft og þá myglu og raka í húsnæði. Það hefur meðal annars verið unnið í samráði við Mannvirkjastofnun og einnig hefur verið haldið sérstakt málþing um myglu í húsum. Við þurfum að taka betur á þeim þætti.

Einnig má nefna fullt af hugmyndum sem í raun þurfa ekki að koma fram sem frumkvæði frá ráðuneytinu, geta komið hvaðan sem er. Sem dæmi má nefna fræðsluátak um að draga úr lausagangi bifreiða einkum við skóla og íþróttahús. Ég þekki það að mörg sveitarfélög hafa gert það að eigin frumkvæði eða jafnvel bara foreldrasamtök hjá viðkomandi skóla. Þannig getum við öll saman bætt loftgæðin (Forseti hringir.) í kringum okkur, ef við erum bara meðvituð um hvað þurfi að gera og hvernig ástandið sé.