143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp undir liðnum störf þingsins til að minna á söfnun sem nú stendur yfir á vegum SÁÁ og ber yfirskriftina Áfram Vogur. Eins og flestum er kunnugt verður sjúkrahúsið Vogur 30 ára í desember á þessu ári. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það hversu mikilvæg þessi stofnun er í íslensku samfélagi. Yfir 24 þús. einstaklingar hafa komið á sjúkrahúsið frá fyrsta degi til dagsins í dag og er talið að yfir helmingur þeirra hafi náð góðum bata. Byggingin sem slík er þó barn síns tíma og ekki síst vegna þess að sjúklingahópurinn á Vogi hefur breyst mikið á þessum 30 árum, mun meira er um mjög veika sjúklinga, eldra fólk sem glímir við hreyfihömlun og almennt getuleysi til að sinna sjálfu sér og þarfnast því meiri umönnunar og aðhlynningar, þjónustu sem ekki var gert ráð fyrir þegar spítalinn var byggður.

Til að bæta úr vanköntum á núverandi húsnæði miðað við breyttar þarfir sjúklinga og starfsfólks ákvað stjórn SÁÁ að byggja við Vog, álfu þar sem veikustu sjúklingarnir verða meðal annars í sérherbergjum. SÁÁ hefur byggt og keypt húsnæði undir starfsemina að mestu án aðkomu frá hinu opinbera og lengst af skaffað húsnæðið alveg endurgjaldslaust fyrir kaupanda þjónustunnar sem er ríkið.

Þær tekjur sem ríkið fær af sölu áfengis á hverju ári nema um 11 milljörðum og koma þessir peningar að langmestu leyti frá þeim sem veikastir eru af alkóhólisma. Ríkið leggur rúmlega 700 milljónir á ári til Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.

Það er einlæg von mín og trú að á komandi missirum muni ríkið leggja mun meira í þessa mikilvægu stofnun sem hefur bjargað svo mörgum frá hinu skelfilega áfengis- og vímuefnaböli. Ég tek heils hugar undir með okkar ástkæra tónlistarmanni Pálma Gunnarssyni sem ritar grein á visir.is í gær þar sem hann lýsir því hvernig meðferð á Vogi gaf honum annað tækifæri í lífinu. Ég, líkt og hann, er einn af þúsundum þakklátra einstaklinga sem lifa góðu lífi í dag fyrir tilstilli þessara einstöku samtaka. Áfram Vogur.