143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á mikilvægu verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, verkefni til að styrkja fámenn byggðarlög. Í gögnum Hagstofu Íslands kemur fram að í upphafi árs 2012 eru 53 byggðakjarnar með færri en 300 íbúa. Frá aldamótum hefur fólksfækkun á bilinu 20–40% átt sér stað í 30 þeirra, þar af 30% í átta byggðarlögum og 40% í þremur. Þessi byggðarlög glíma við viðvarandi fólksfækkun, einhæft atvinnulíf, fækkun starfa og hækkun á meðalaldri íbúa. Þau standa höllum fæti og geta lagst af verði ekki gripið til markvissra aðgerða. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir fjölþættan stuðning og opinberar aðgerðir, svo sem í formi lánveitinga, hefur ekki reynst unnt að snúa þróuninni við. Því hefur Byggðastofnun leitað annarra leiða til að styrkja þessi byggðarlög þar sem meðal annars er gerður skýr greinarmunur á stöðu ólíkra byggðarlaga og að þróaðar séu mismunandi leiðir til að nýta þau tækifæri og áskoranir sem felast í hverjum byggðakjarna.

Markmið verkefnisins, sem hófst á Raufarhöfn 2012 og tekur einnig til Bíldudals og Breiðdalsvíkur meðal annars, felur í sér að auka vitund fólks í brothættum byggðarlögum um eigin þátt í þróun samfélagsins, að virkja frumkvæði íbúa og samtakamátt, að gefa íbúum kost á að taka þátt í forgangsröðun verkefna og framtíðarþróun síns byggðarlags, að stilla saman strengi ríkis, sveitarfélags, opinberra stofnana, atvinnulífs og íbúa í ákvörðunum sem varða byggðarlögin. Hafa verið settar saman verkefnisstjórnir á hverjum þessara staða með íbúum, sveitarstjórnarmönnum, atvinnuþróunarfélögum, Háskólanum á Akureyri og Byggðastofnun. Verkefnið er komið lengst á Raufarhöfn og er það mat aðstandenda að það hafi nú þegar skilað umtalsverðum árangri í að auka samtakamátt og samstöðu íbúa þar.