143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna áhuga Vinstri grænna á hagræðingarhópnum og vona að það sé upptaktur fyrir málefnalega og góða umræðu um hvernig megi hagræða í ríkisrekstri því það er algerlega nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að gera tvennt: Að forgangsraða eftir málaflokkum, þ.e. hvað viljum við leggja mesta áherslu á, og sömuleiðis að við þurfum að nýta betur þá fjármuni sem við höfum úr að spila.

Það hefur margoft komið fram að hagræðingarhópurinn skoðaði skýrslu og úttektir sem er löngu búið að gera, sumt yfir langan tíma, sumt tiltölulega nýlegt og annað eldra og þetta eru í raun allt sömu niðurstöðurnar. Þetta er allt saman eitthvað sem ríkisstjórnir hafa gert, bæði síðasta ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og ríkisstjórnin þar á undan. Það er nefnilega þannig að við þurfum ekki að gera nýjar úttektir. Við getum skoðað þær sem eru þegar til og reynt að læra af þeim. Og ég hvet hv. þingmenn Vinstri grænna til að skoða þessi gögn sem öllum eru aðgengileg.

Síðan er hitt að auðvitað þarf að hagræða eða réttara sagt forgangsraða eftir málaflokkum og ég fagna því að nú er komin að því er virðist mikil samstaða um að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Það er mikil breyting frá því sem var á síðasta kjörtímabili því þá var samþykkt fjárfestingaráætlun af hálfu síðustu ríkisstjórnar upp á fleiri milljarða, sem ekki eru til. Virðulegi forseti. Hvað haldið þið að mikið af því hafi farið í heilbrigðismálin? Hvað haldið þið að það hafi verið mikið? Nákvæmlega ekki ein króna.

Núna er sem betur fer annað upp á teningnum og ég heyri (Forseti hringir.) á hv. þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að þeir hafa skipt um skoðun, það eigi að forgangsraða með öðrum hætti og ég fagna því.