143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hefur ríkisstjórnin frestað nóvembermánuði? Það er óhjákvæmilegt að spurt sé því að tugir þúsunda Íslendinga bíða þess í ofvæni að í nóvembermánuði komi fram tillögur til úrlausnar á skuldavandanum sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað okkur. En þá ber svo við að formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir á Bloomberg að ólíklegt sé að tillögur komi fram á þessu ári og að hann vonist til þess að nefndirnar sem áttu að klára í nóvember klári fyrir áramót. Þá spyr maður auðvitað hvort ríkisstjórnin hafi gert ráðstafanir til að flytja áramótin fram í nóvembermánuð eða hvernig þetta mál sé eiginlega í laginu. Það er ákaflega alvarlegt að stjórnarflokkarnir séu ekki samhljóma um það hvenær tillagna sé að vænta og hvort þeirra sé að vænta.

Við erum nýlega búin að heyra sama Bjarna Benediktsson lýsa því yfir að þetta séu einhverjar vangaveltur en ekki ótvíræð ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðast í lækkun skulda heimilanna. Það er ábyrgðarhluti að tala um dagsetningar á tvist og bast eins og formaður Framsóknarflokksins annars vegar og formaður Sjálfstæðisflokksins hins vegar eru farnir að gera í málinu. Mér finnst að stjórnarflokkarnir og forustumenn þeirra skuldi skuldugum heimilum hér í landinu það að tala alveg skýrt um hvort tillagna sé að vænta í nóvember, eins og sagt var í sumar, eða hvort þeirra sé ekki að vænta fyrr en um áramót eða hvort þeirra sé ekki að vænta fyrr en á næsta ári. Það er fjöldinn allur af fólki í alvarlegri neyð sem treystir á þessar yfirlýsingar og þarf á þeim að byggja áætlanir sínar um framtíðina. Þess vegna þurfa þær, virðulegur forseti, að vera skýrar. Ég bið þá þingmenn stjórnarflokkanna sem hér koma á eftir mér að skýra þetta betur.