143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á Almannaheillum – samtökum þriðja geirans sem voru stofnuð sumarið 2008 til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum frjálsra félagasamtaka sem starfa í almannaþágu og vera málsvari þeirra gagnvart opinberum aðilum og fjölmiðlum. Þá er samtökunum ætlað að vinna að því að sett verði heildarlöggjöf um frjáls félagasamtök, að skattaleg staða þeirra verði bætt og sýnileiki þriðja geirans í þjóðfélaginu verði aukinn.

Tilgangur samtakanna er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu, skapa þessum aðilum hagfellt starfsumhverfi, styrkja ímynd þeirra og efla stöðu þeirra í samfélaginu, vera málsvari almannaheillasamtaka gagnvart opinberum aðilum og samfélaginu og að stuðla að umræðu um hagsmunamál meðal almannaheillasamtaka og á opinberum vettvangi og þrýsta á aðgerðir stjórnvalda í þeim málefnum.

Ég vil einnig vekja athygli ykkar á því hvert er skattalegt ferli góðverka sem ganga til almannaheillasamtaka. Ef einhver örlátur aðili vill eftirláta samtökunum eftir sinn dag af eigum sínum er greiddur erfðafjárskattur. Ef það er leyst upp og verður að fjáreignum er greiddur af því fjáreignaskattur og að lokum, þegar styrkir eru veittir, er greiddur af því tekjuskattur. Ég vil bjóða þingmönnum upp á að skoða hjá mér skattalega útreikninga á fjáreignasköttum miðað við verðbólgu og raunvexti. Svona lítur taflan út. Ég hef ekki tækifæri til þess að lýsa henni hér en ég býð þingmönnum upp á að ræða þetta mál.