143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Páli Vali Björnssyni sem hóf umræðuna hér og talaði um aðila eða samtök sem hafa unnið þrekvirki í íslenskri heilbrigðisþjónustu og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason talaði um málið í stærra samhengi. Ég held að það sé vel þess virði að við gerum hvað við getum til að styðja þessi samtök sem hafa unnið jafn óeigingjarnt starf og raun ber vitni og vil líka benda fólki á þá staðreynd að SÁÁ og önnur sambærileg samtök eru eitt þeirra stórhættulegu einkaframtaka í heilbrigðisþjónustu sem fólk talar oft um eins og eitthvað skelfilegt fyrirbæri. Það er auðvitað ekki svo.

Hér á landi eins og annars staðar eru sjálfseignarstofnanir, félög og samtök eins og þessi sem vinna gríðarlega gott starf, auðvitað hafa þau hvert og eitt ekki náð fullkomnun frekar en neitt annað, en þriðji geirinn er, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason fór yfir, er nokkuð sem við höfum ekki litið nægilega vel til. Við höfum ekki skapað þriðja geiranum nægilega góða umgjörð. Það er eitt af því sem við ættum að vinna að á þessu kjörtímabili því að það mundi nýtast vel. Ef vel er á málum haldið kemur ekkert í staðinn fyrir fórnfúst starf hugsjónafólks, það er eitthvað sem verður aldrei mælt. Þess vegna vil ég taka undir með þessum tveim hv. þingmönnum og hvetja okkur þingmenn til dáða hvað þetta varðar.