143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líkt og flestir aðrir fagna ég því að það sjái loks til lands við gerð fríverslunarsamnings við Alþýðulýðveldið Kína. Nú er það ljóst að við erum með í gegnum EFTA samninga við 22 ríki og fríverslunarsamningar eru fyrst og fremst í gegnum EFTA þó að við höfum gert nokkra beina samninga með svipuðum hætti og við erum að gera núna.

Það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra er hvort hann sjái fyrir sér að á komandi árum geri Ísland fleiri slíka sjálfstæða fríverslunarsamninga. Við hvaða ríki væru slíkir samningar? Hvaða markmiðum ætti að ná með slíkum samningum? Ég spyr einnig hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að beita fríverslunarsamningunum sem hluta af þróunaraðstoð. Ég held að ekkert sé mikilvægara fyrir ríki þriðja heimsins og ekki síst þau ríki sem byggja allt sitt á landbúnaði að hafa frjálsan aðgang að mörkuðum á Vesturlöndum.

Ég hygg að hægt sé að færa rök fyrir því að þróunaraðstoð Íslendinga og Evrópuríkja sé mörkuð samviskubiti vegna þess að þau hafa lokað í raun mörkuðum fyrir mikilvægar afurðir þessara landa.