143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki svarað þessu nógu skýrt hér áðan en að sjálfsögðu munu Íslendingar halda áfram að reyna að gera sjálfstæða samninga við önnur ríki ekki síst ríki sem eru kannski efst á baugi hjá EFTA eða samstarfsaðilum okkar á hverjum tíma, hvort sem það er nú Kasakstan eða önnur ríki.

Varðandi Bandaríkin þá er ljóst að Bandaríkin eru þessa stundina komin af stað í viðræður við Evrópusambandið um fríverslunarsamning sem ég held að skipti okkur líka miklu máli. Á sama tíma er ekki raunhæft að við séum að semja við Bandaríkin. Það hafa þeir sagt okkur alveg skýrt og skorinort. En við munum hins vegar, í gegnum EFTA-samstarfið, fá að fylgjast með þeim viðræðum og þeim samningi.

Við áttum hins vegar um daginn fund í Kanada þar sem við ræddum meðal annars þessi mál við Kanadamenn, við erum með samning við Kanada sem er orðinn nokkuð gamall. Þar ræddum við einmitt hvort ekki væri tímabært að endurskoða þann samning, víkka hann út. Kanadamenn tóku ágætlega í það en á sama tíma eru þeir að sjálfsögðu líka í viðræðum við Evrópusambandið um fríverslunarsamning sín á milli.

Af því að hv. þingmaður nefndi aftur fríverslunarsamninga og þróunarhjálpina þá hefur það vakið athygli mína undanfarið, á fundum þar sem þróunarmálin hafa komið upp eða þá í viðræðum við fulltrúa nokkurra ríkja frá Afríku, ég nefni þau einmitt, að þeir eru mjög þakklátir fyrir þá aðstoð sem þeir eru að fá og meta hana mjög mikils í dag. Hún skiptir miklu máli fyrir þessi ríki. Þeir óska jafnframt eftir því að fá meiri hjálp þegar kemur að því að semja lög og reglur um hvernig standa eigi að nýtingu náttúruauðlinda til dæmis, hvernig nýta eigi fiskinn í sjónum og allt þetta. Þar getum við vonandi lagt hönd á plóginn líka.