143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa unnið svona rösklega að því að ljúka þessu máli og geta lagt það fyrir þingið; sömuleiðis hans ágæta starfsfólki. Ég átti ekki von á að þetta mál kæmi til þingsins fyrr en hugsanlega einhvern tímann undir jól og sannarlega mun ekki liggja á mér, og örugglega ekki öðrum félögum í utanríkismálanefnd, að reyna að vinna að því markmiði, sem hæstv. ráðherra lagði hér fyrir okkur, að ljúka samningnum fyrir 1. janúar þannig að hann gæti þá orðið fullgildur.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þetta kunni að vera mikilvægasti samningur sem við höfum gert við önnur ríki síðustu 20 árin. Það fer allt eftir því hvernig hann verður útfærður. Það er eðli fríverslunarsamninga að ómögulegt er að segja til um það fyrir fram hver ávinningurinn af þeim verður. Það fer allt eftir því hvernig viðkomandi lönd reyna að nýta sér þær opnanir sem þar er að finna. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að í þessum tiltekna samningi liggi margir duldir möguleikar sem atvinnulífið hér á Íslandi hefur ekki algjörlega gert sér grein fyrir. Eins og kemur fram í greinargerð með samningnum gerði atvinnulífið hér á landi ekki sérstaklega ráð fyrir því að þetta mundi til dæmis opna margar leiðir varðandi útflutning á fiski. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það séu alveg gríðarlegir möguleikar sem fylgja því.

Við getum bent á lítil dæmi sem þegar hafa gerst sem mætti kalla undur, eins og það hvernig Íslendingum hefur í samvinnu við Kínverja, áður en þessi samningur tók gildi, tekist að selja héðan fisk sem áður var hent, þ.e. hveljunni af grásleppunni sem áður var einskis virði. Fyrir þremur árum fór fyrsti gámurinn í tilraunaskyni — framsýnir kapítalistar á Íslandi sem reyndu að notfæra sér ákveðna glufu. Í dag er það þannig að allt er selt, það sem áður var hent, ætli það sé ekki svona fast að 2 milljarða kr. virði, er allt saman selt til Kína. Ég varð sjálfur þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta þann mann sem sér um söluna í Kína áður en hann hóf það starf. Hann sagði: Fyrst þurfum við að læra — þeir höfðu aldrei séð svona fisk — hvernig á að matbúa hann og svo skulum við sjá hvort hægt er að selja hann. Þeir lærðu hvernig átti að matbúa hann og í dag selja þeir allt. Vilja alla grásleppu sem hægt er að fá, líka utan Íslands. Þetta er til marks um hvað hægt er að gera.

Ef ég dvel aðeins áfram við fiskinn þá er staðan í sjávarútvegi sem betur fer þannig að góð tíðindi eru úr hafinu. Það veiðist meira. Íslendingar munu á næstu þremur árum veiða 50 þús. tonnum meira af þorski en áður. En í Barentshafi er sama blómaskeiðið uppi. Þar var á nýliðnu fiskveiðiári samþykkt kvótaaukning af hálfu Rússa og Norðmanna sem er meira en allur þorskurinn sem við veiðum á heilu fiskveiðiári. Við sjáum þessa gæta strax í því að verð á fiski fer lækkandi og töluvert verðfall hefur orðið á stórum fiski. Ég er þeirrar skoðunar að með því að opna þennan markað til Kína sé hægt að stemma stigu við þessu. Þar hafi Íslendingar möguleika, í þessu gríðarlega stóra ríki, á að opna nýja markaði. Það má til dæmis ekki gleyma því að örlítill hluti af Kína, sem er samt nokkrir tugir milljóna, býr til dæmis að saltfiskhefð. Þar eru markaðir sem hægt væri að nýta til þess. Ég tel þess vegna að þarna séu kannski í fljóti bragði hvað mestir möguleikar.

Forskot Íslendinga liggur í því að við erum fyrsta Evrópuríkið og annað OECD-ríkið sem nær samningi af þessu tagi við Kína. Eins og við vitum varð uppstytta á millum Kína og helstu samkeppnisþjóðar okkar á sviði fiskveiða, þ.e. Norðmanna. Ég tel sjálfur að síðla næsta árs muni bresta á með fríverslunarsamningum milli Norðmanna og Kína en við höfum tíma til að nýta okkur þetta forskot og við eigum að gera það.

Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að vinna að því að koma á samstarfi á milli utanríkisráðuneytis, Íslandsstofu og þeirra sem flytja út fisk til að hafa hraðar hendur við að ná fótfestu fyrir íslenskan fisk á Kínamarkaði á meðan við sitjum einir að honum; og vísa til þess að þessir þrír aðilar hafa áður náð mjög góðri samvinnu um að endurheimta markaði til dæmis fyrir saltfisk.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur Íslendinga, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason sagði hér áðan, að sinna fríverslunarsamningum mjög gaumgæfilega. Ég þekki það af eigin reynslu úr EFTA að stundum þarf að hotta á EFTA.

Hér voru nokkrir fríverslunarsamningar nefndir áðan eins og milli EFTA annars vegar og hins vegar Rússlands Kasakstan og Hvíta-Rússlands. Þeir sem hafa fylgst með því vita af hvaða ástæðum Rússar eru að reyna að vinna upp það sérkennilega tollabandalag og vita vafalaust einnig að þeir vildu fá Úkraínu inn í það líka. Það kannski liggja aðrar hvatir þar að baki en einungis fríverslun og bara til þess að ég hafi sagt það hér sem fyrrverandi utanríkisráðherra þá lýsti ég efasemdum við það og ég á eftir að sjá Alþingi Íslendinga samþykkja slíkan samning á meðan ástandið í mannréttindamálum í Hvíta-Rússlandi er eins og það er og eins og þróunin þar er. (Gripið fram í.) Og af því að hér er þingmaður í salnum sem hefur áhuga á mannréttindamálum í Kína þá er rétt að það komi algjörlega skýrt fram að í þeim viðræðum sem lágu til grundvallar þessu voru mannréttindi tekin upp með þeim hætti, eins og einn viðstaddur orðaði það, að gufan stóð út úr eyrum þeirra kínversku ráðherra ellefu sem hingað komu til samtals.

Þá var vísað í umræður sem hv. þingmaður hafði hafið hér í þingsal um mannréttindamál í Kína þannig að það er sennilega í fyrsta skipti í sögu alþjóðlegra samninga Kína sem mál voru tekin með þeim hætti upp. Og vegna þess að ég hef komið að þessu máli þá er rétt að það komi hér algjörlega skýrt fram að íslensk stjórnvöld hafa alltaf tekið upp mannréttindamál. Í lok nóvember síðasta, áður en gengið var til síðustu lotunnar í þessu, fór sérstök sendinefnd til Kína frá Íslandi bókstaflega til að ræða það og gerði það. Það má segja Kínverjum til hróss að þeir skirrast aldrei við að ræða mannréttindamál og hægt er að ræða allt við þá. (Gripið fram í.) — Svona til fróðleiks hv. þingmaður, þá kemur stundum þessi spurning frá þeim í lok slíkra samtala: Hafið þið spurt Bandaríkjamenn þessara sömu spurninga? Ég verð nú að viðurkenna það, ég hef ekki gert það. (Gripið fram í.) Hins vegar þarf það að liggja algjörlega ljóst fyrir, eins og hæstv. ráðherra benti hér á, að í þessum samningi er ákvæði sem gerir kleift að hafa samráð milli kínverskra og íslenskra stjórnvalda þar sem hægt er að taka upp mannréttindamál af þessu tagi og sjálfsagt að gera það.

Kínverjar eru ekkert hræddir við það en það er líka rétt að benda á það að með hinum nýju stjórnvöldum sem nú eru í Kína þá eru breytingar. Það hefur til dæmis farið tiltölulega lágt að í Kína, alveg eins og í Sovétríkjunum gömlu, voru búðir sem menn voru sendir í þangað til nýlega. Hin nýja forusta Kínverja leggur þær niður þó að það hafi ekki farið hátt hér. Það að Vesturlönd eru stöðugt að klappa steininn og lýja hann með umræðum, það hefur áhrif og það að hafa náin samskipti eins og við höfum við alþýðulýðveldið og taka upp þessi mál, það hefur áhrif.

Sömuleiðis vildi ég spyrja hæstv. ráðherra — hann getur þá svarað mér hér einhvern tímann í dag. Hann gat réttilega um að í gangi væru viðræður um að búa til samkomulag um vinnuvernd, umhverfisvernd og vinnurétt. Deilur sköpuðust um þetta á sínum tíma. Við vorum í þeirri góðu trú, við sem stóðum í þessari samningagerð, að búið væri að róa fyrir þær víkur sem Alþýðusamband Íslands og ýmsir í verkalýðshreyfingunni töldu að róa þyrfti fyrir, að við værum að vinna þetta í samræmi við þeirra vilja. Í ljós kom að svo var ekki. Þeir vildu hafa þetta með öðrum hætti. Þá er rétt að undirstrika það, eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni, að við Íslendingar erum annað OECD-landið sem gerum svona samning, hitt var Nýja-Sjáland. Þeir sem vilja sjá hvaða áhrif svona samningur getur haft á efnahagslíf þjóða ættu að skoða hvaða áhrif þessi samningur hefur haft á atvinnu- og efnahagslíf í Nýja-Sjálandi frá því að samningurinn sá tók gildi 2008.

Ef ég hefði lengri tíma þá hefði ég gaman af að ræða hvernig sá samningur milli Kína og Nýja-Sjálands hefur áhrif á íslenskan landbúnað í dag og hefur skapað ný markaðssvæði fyrir íslenskan landbúnað. En það er önnur saga.

Hæstv. ráðherra sagðist vonast til þess að þessu samkomulagi yrði lokið innan skamms og rétt að það liggi alveg ljóst fyrir að ég lýsti því yfir á sínum tíma að við vildum freista þess að geta lagt fram hvort tveggja saman. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti verið ítarlegri í lýsingum sínum á því hvenær það samkomulag mun liggja fyrir.