143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka fyrir hugleiðinguna og þessa skörpu sýn á það hvaða leið er best að fara. Ég verð að segja að það er rangtúlkun að ég segi að slíta eigi öllum samskiptum við ríki sem viðhafa viðbjóðsleg mannréttindabrot. En að fara í viðamikla einhliða viðskiptasamninga við slík ríki án þess að kröfurnar séu algjörlega skýrar um að horfið verði af braut jafn víðtækra mannréttindabrota finnst mér vera, ég verð að segja það, pínulítil hræsni. Mér finnst mikilvægt að við gerum skýrar kröfur áður en við förum út í svona, þar sem við erum orðin beinir þátttakendur með þessari viðurkenningu á mannréttindabrotum og setjum ekki bara inn einhverja eina setningu um að Kínverjar eigi ekki að framkvæma mannréttindabrot. Af hverju komum við þá ekki með einhverjar tillögur?

Þess vegna segi ég við alla þá sem ætla að setja atkvæði sitt í græna reitinn í þessu máli að ég mun leggja fram aftur þingsályktunartillögu mína um málefni Tíbets og óska eftir að þeir hinir sömu muni greiða atkvæði með því og kynni sér það mál. Ég mun leggja þá tillögu fram síðar í þessari viku.