143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Heldur hv. þingmaður að eitthvert annað ríki í heiminum en Ísland hafi undirbúið ferðalög sinna forustumanna til Kína með fundum með Amnesty International til þess að kynna sér viðhorf þeirra gagnvart Tíbet? Mér er ekki kunnugt um að nokkurt ríki hafi sent ráðherra til Kína sem hefur átt þar klukkutímafund bara um málefni Tíbets nema Ísland, svo það sé á hreinu. Það er ekki hægt að segja að Ísland (BirgJ: Hvaða …?) hafi slakað á — Björgvin G. Sigurðsson. (BirgJ: Að hans frumkvæði?) Það var að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem hann sat í, svo það liggi fyrir. Það er ekki síðasta skiptið sem málefni Tíbets hafa verið tekin upp og önnur málefni.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að mannréttindi séu afgreidd með einni setningu í samningi. Í þessum samningi er ákvæði um pólitískt samráð og Kínverjar vita nákvæmlega með hvaða hætti því verður beitt. Þar verður meðal annars talað um mannréttindi ef Íslendingar telja þörf á. Sömuleiðis tel ég að það samkomulag sem á eftir að ljúka sé svipað og Nýsjálendingar höfðu í samningi sínum. Ég geri ráð fyrir samráði þar sem koma að fulltrúar verkalýðshreyfinga beggja landa og fjalla um vinnuvernd, vinnurétt og eftir atvikum umhverfisvernd. Það skiptir mál, það ræður ekki úrslitum en dropinn holar steininn. Eftir því sem fleiri ríki gera svona samninga og eftir því sem fleiri ríki taka þetta upp í samskiptum við Kínverja hefur það áhrif. Það er einfaldlega þannig.

Ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að stundum les ég bækur eins og hún og ég hef lesið bók þeirra tveggja blaðamanna sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Ég veit alveg að saga Kínverja og fleiri ríkja er ekki alls staðar gulli drifin, mér er algjörlega kunnugt um það. Spurningin er þessi: Er betra eða verra fyrir mannréttindi í Kína að slíkir samningar séu gerðir? Mín skoðun er alveg skýr.