143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst í raun og veru pínulítið skringilegt, miðað við allt það sem við erum búin að ganga í gegnum hérna undanfarin ár út af því að geyst var farið, að það sé verið að líkja svona mikilvægum samningi við músaveiðar. Ég ítreka: Er ekki skynsamlegra í staðinn fyrir að æða áfram í einhverjum flumbrugangi að gera þetta í gegnum EFTA? Ég bara spyr. Alveg óháð því hvort við gætum hugsanlega, mögulega selt meiri fisk á næsta ári, eigum við ekki að gera eins og vinir okkar í austri, að hugsa dálítið lengra fram í tímann, t.d. til næstu 100 ára? Það hefur ekki einkennt íslensk stjórnmál í gegnum tíðina.

Ég vil bara minna á þessa grein sem mér finnst svolítið merkileg um heilsuþorpin. Þar kemur fram að í samningaviðræðunum við þetta kínverska fyrirtæki voru kröfurnar frá þeim þær að kínverskir verkamenn mundu vinna að uppbyggingunni og verkið yrði undir stjórn Kínverja, byggingarefni yrði að stórum hluta frá Kína o.s.frv. Mér finnst þetta vera grundvallaratriði þegar kemur að svona kröfum.

Mig langar að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvort það sé virkilega ekki neinn beygur í honum, hvort þingmanninum finnist ekki mikilvægt að stíga mjög varlega til jarðar og kynna sér til dæmis nýja bók sem var að koma út og fjallar um viðskipti og viðskiptahætti Kínverja á Vesturlöndum, hvort það sé ekki tilefni til að bíða og fara yfir það sem þar kemur fram.