143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[15:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að í fyrra tókst ekki að fá þetta mál samþykkt. Þá var það svo að það var núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem gerði við það sterkar athugasemdir og það varðaði akkúrat þessi tilteknu álitaefni sem hæstv. ráðherrann lagði fram í lok máls síns og sagði að búið væri að svara. Ég er út af fyrir sig þakklátur hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa svarað með svo skýrum hætti um hvaða svið það eru sem ekki falla undir þessa tilskipun.

Þetta eru nákvæmlega sömu svörin og núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra voru flutt á sínum tíma þegar hún kom í veg fyrir að þetta yrði samþykkt. Spurning mín er því bara þessi: Er það algjörlega svo að öll ríkisstjórnin sé sammála því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara á þessu máli og hleypa því í gegn? Getur hæstv. utanríkisráðherra fullvissað mig um að hann sé búinn að snúa niður hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hún muni örugglega fallast á málið? Ég vildi gjarnan fá skýr svör við því, því að hún féllst ekki á það í fyrra.