143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

75. mál
[15:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð þetta auðvitað eins og flest önnur góð mál sem hæstv. ráðherra ber fram, og þekki þetta mál svolítið. Það vakti eftirtekt mína að hæstv. ráðherra sagði að ekki væri fyrirhugað að leggja fram breytingar á lögum til að geta innleitt þessa tilskipun. Þó kemur hæstv. ráðherra og biður þingið um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Menn leika sér ekki að því að gera svoleiðis nema það liggi alveg ljóst fyrir að einhver alvara búi að baki.

Ég hef út af fyrir sig ákveðna samúð með hæstv. ráðherra að þurfa að koma hérna og flytja einhverja hörðustu innleiðingarhrinu sem ég man eftir. Ég held að ég sjálfur á tæpum fimm árum hafi aldrei náð því að koma hingað og berja í gegnum þingið tíu aðlaganir á einum eftirmiðdegi. Ég man ekki betur en hæstv. utanríkisráðherra hafi flutt margar góðar, snjallar og að mörgu leyti aðdáunarverðar ræður á síðasta þingi fyrir hans sannfæringu gegn öllu þessu innleiðingarbixi. Ég get alveg viðurkennt fyrir þinginu að mér var oft raun að því að þurfa að vera eins konar sendisveinn fyrir ESB og koma hingað í krafti EES-samningsins [Hlátur í þingsal.] og leggja fyrir þingið ýmiss konar mál sem ég hafði takmarkaða trú á en við urðum að gera það og getum ekki breytt því.

Þessi gerð sem hæstv. ráðherra er með varðar í reynd ekkert í dag nema eina litla bensínstöð í Kópavogi sem er undir blokk. Hæstv. ráðherra er í reynd að segja að hann hafi engan áhuga á því að trufla ríkisstjórnina með því að troða málinu í gegn í formi lagabreytinga og ég hef meira að segja fulla samúð með því. Samúð mín er þó meiri með ráðherranum sem hefur rifið sig niður í rass gegn því að Ísland aðlagi sig að ESB og kemur nú með tíu stykki á einum eftirmiðdegi. Til hamingju, hæstv. ráðherra. Þetta er Íslandsmet.