143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála mörgu af því sem hv. þingmaður sagði. Ég tel að besta leiðin til þess að endurheimta löggjafarvaldið sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þá höfum við að minnsta kosti áhrif og getum sagt að íslenskir fulltrúar geti tekið þátt í að rökræða og greiða atkvæði með eða á móti. Í dag er það ekki hægt. Í dag er þetta eins konar lýðræði faxtækisins, svo ég vísi til frægra ummæla hér, að vísu tíu ára gamalla.

Þetta er einfaldlega þannig að hæstv. utanríkisráðherra sem kemur hér eins og sendisveinn ESB, eins og ég lýsti sjálfum mér í ræðu áðan, hefur enga möguleika til þess að breyta þessu. Íslenska þingið verður að taka þetta upp, það er partur af EES-samningnum. Undir það gengumst við á sínum tíma.

Á þeim tíma var talið að þetta væri á gráu svæði og síðan hef ég lýst þeirri skoðun minni að við séum komin út fyrir það gráa svæði. Við í utanríkismálanefnd höfum núna fimm mál af mismunandi stærðargráðu þar sem er alveg ljóst í mínum huga að við getum ekki tekið upp neitt þeirra án þess að brjóta stjórnarskrána. Þrjú þeirra eru lítil en fela samt í sér eins og t.d. að sektarvald er tekið út úr landinu. Það er brot á fullveldi eins og ég skil stjórnarskrána. Og smám saman, þegar öll þessi smærri dæmi eru lögð saman, er alveg ljóst að við erum komin út fyrir gráa svæðið.

Þar fyrir utan eru önnur stærri mál sem ég veit að við hv. þingmaður erum ósammála um, eins og aðild að bankabandalaginu sem ég tel að sé gott fyrir Ísland. Hins vegar mundi ég ekki geta tekið undir það sem hv. þingmaður rifjaði upp úr ummælum Atla Gíslasonar. Ég held að það séu ekki mörg dæmi um að slys hafi orðið — en það hafa orðið slys. Ég nefni til dæmis fráveitutilskipunina, hún var slys. Það er dálítið langt síðan, ég get svo sem ekki bent á önnur.

Að öðru leyti er það hlutskipti hv. þm. Óla Björns Kárasonar að hann styður ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem mun leggja fram fjölmörg lagafrumvörp á þessu þingi og 30% af þeim eru samkvæmt skipun Evrópusambandsins. Við það verður hann að lifa.