143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:38]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni kærlega fyrir. Ég verð að lifa við ýmislegt en ég get haldið áfram að berjast fyrir þeim hugmyndum og skoðunum sem ég hef, líkt og bardagamaðurinn hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Það sem ég vek athygli á undir þessum dagskrárlið er að ég tel að við séum komin, einmitt eins og hv. þingmaður sagði, yfir gráa svæðið. Ég dreg bara aðrar ályktanir og ég vil fara í aðra átt en hv. þingmaður. Ég vil að við beitum okkur fyrir því að EES-samningurinn verði endurskoðaður með tilliti til þess að við erum byrjuð að innleiða í lög tilskipanir Evrópusambandsins sem ég tel að gangi gegn stjórnarskrá og við höfum ekki rétt til að gera með þeim hætti sem við höfum gert.

Ég held að nauðsynlegt sé fyrir þingið að ræða af fullkominni alvöru hvaða áhrif EES-samningurinn og tilskipanir Evrópusambandsins hafa haft á íslenskt regluverk og lagasetningu og hvernig við getum staðið öðruvísi að málum. Þetta er það sem ég tel að við eigum að gera en ekki að hlaupa í fang ljónsins og stinga hausnum í gin þess og láta klippa hausinn af, líkt og hv. þingmaður vill.