143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:43]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á þessu, en ákafinn er mikill.

Hættan við það — þegar menn finna svona töfralausnina, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og félagar hans í Samfylkingunni allri, að lausnarorð á öllum vanda íslensks efnahagslífs sé að ganga í gin ljónsins, ganga í Evrópusambandið — er sú að þá sér hann ekki alla þá gríðarlega miklu möguleika sem eru fyrir hendi fyrir Ísland með því að opna fyrir alþjóðleg viðskipti. Við vorum hér að ræða um fríverslunarsamning við Kína. Ég hef verið að tala um það á síðustu fjórum til fimm árum að við eigum að hafa forustu um að kanna möguleika á því að mynda fríverslunarbandalag í Norðurhöfum milli Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands, Færeyja, Íslands og Noregs og jafnvel taka Rússland þar inn í. Það yrði alvörufríverslunarsamningur sem mundi þjóna hagsmunum þessara landa og jafnvel líka annarra landa Evrópu.

Við gætum víkkað þann samning út þannig að samstarf væri á sviði náttúruverndar, á sviði vísinda og mennta o.s.frv. Möguleikarnir eru ekki fólgnir í því að afsala sér fullveldisrétti heldur að eiga opin samskipti og viðskipti við aðrar þjóðir.