143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf metið það þannig, þó svo að við séum ósammála í pólitík, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það sé frekar hlýtt á milli okkar og við værum ágætisfélagar og vinir. (ÖS: Erum við það ekki?) En hér kemur hv. þingmaður upp og vill senda mig til Brussel. [Hlátur í þingsal.] Ég átti ekki von á því frá vini mínum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að hann vildi senda mig á Evrópuþingið af öllum stöðum. En ég fyrirgef það nú, virðulegi forseti.

Ég tel hins vegar ekki neitt mæla gegn því þegar maður hefur áhyggjur af stjórnarskránni að við nýtum það sem EES-samningurinn hefur upp á að bjóða. Ég held að það felist engin andstaða eða mótsögn í því, þvert á móti. Ég vísaði til þess að í EES-samningnum er okkur gert kleift að hafa áhrif og hv. þingmaður veit það, áður en gengið hefur verið frá tilskipun í Evrópuþinginu. Við höfum reynt að hafa áhrif með þeim rökum að uppleggið í viðkomandi tilskipun henti okkur ekki og að þess vegna þurfi hún einhverra breytinga við.

Það er nákvæmlega það sem ég sagði þegar innstæðutryggingatilskipunin kom. Ég gerði hvað ég gat til þess að vekja athygli síðustu hæstv. ríkisstjórnar á þeirri hættu sem þar var. Og ég gerði miklu meira, ég fór á minn eigin kostnað í Evrópuþingið í Strassborg til þess að tala máli okkar Íslendinga í því máli og öðru.

Ég er ekkert að grínast, virðulegi forseti, ég tel að það sé mikilvægt að við höfum góð og eins mikil samskipti og hægt er við aðra þingmenn. Við getum lært af því og að vitum hvað er í gangi, þannig að þetta var ekki sagt í neinu gríni; ég held að það væri gott fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að kynna sér þau mál enn betur en hann hefur gert fram til þessa þó svo að ég hafi nú minnstar áhyggjur af honum, ég hef meiri áhyggjur af öðrum hv. þingmönnum.

Vandinn er sá, virðulegi forseti, að vegna þess að við beittum okkur ekki þegar við gátum það (Forseti hringir.) erum við nú í miklum vanda út af þessari skelfilegu tilskipun.