143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hóf þessa umræðu vegna þess að ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif EES-samningurinn hefur haft á íslenska lagasetningu og regluverk. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vilji leysa vandann með því að ganga í Evrópusambandið og fá þar sex þingmenn af 751, eða 0,8%. (Gripið fram í.)Ég er því ósammála. Við náum kannski seint saman í þeim efnum þó að við getum verið sammála um margt annað.

Skilaboðin sem ég er að reyna að koma til hv. þingmanns eru tvíþætt. Annars vegar eru þau að möguleikar okkar Íslendinga í samskiptum við aðrar þjóðir eru miklu fleiri og stærri en hann vill vera láta. Mér finnst vinur minn hv. þm. Össur Skarphéðinsson frekar þröngsýnn að sjá ekki þá miklu möguleika sem blasa við okkur (Gripið fram í.) ef — nei, ég bendi hins vegar ekki eins oft á það og margir aðrir.

Ég tel að við eigum akkúrat að vinna þannig að við læsum okkur ekki inni í einhverjum heimi sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson telur að sé lausn á öllum vanda og verkefnum okkar Íslendinga. Þar erum við og verðum greinilega ósammála.