143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær áhugaverðu umræður sem hér hafa farið fram um þessa tilskipun og efni henni tengt. Það er margt búið að segja sem ég vil koma á framfæri að ég er algjörlega sammála. Ég er algjörlega sammála því að margt af því sem hefur verið innleitt hér og er verið að leggja til að við innleiðum reynir á fullveldi okkar samkvæmt stjórnarskránni. Þar af leiðandi höfum við undanfarið og á síðasta þingi, þ.e. við sem vorum í utanríkismálanefnd þá, sett niður hælana og velt fyrir okkur til hvers. Það höldum við áfram að gera þótt einhver okkar séu komin í ríkisstjórn eða hinum megin við borðið.

Hluta af þeim innleiðingum og samþykktum sem við erum að taka upp erum við bundin af samkvæmt samningum. Þar af leiðandi var athyglisvert að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson áðan þegar hann sagði í sömu andránni að sá er hér stendur væri sendisveinn Evrópusambandsins en hann gæti ekkert annað því að þetta væri bundið í samningum. Það kann vel að vera að ég sé sendisveinn sem fylgir samningum en samningum þurfum við að fylgja.

Ég tek hins vegar undir með þeim sem hafa sagt að sífellt fleiri tilskipanir reyni á stjórnarskrá okkar. Við þurfum því að velta fyrir okkur hvort við getum haldið þannig áfram.

Ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að ekki sé valkostur að gera tvíhliða samninga við Evrópusambandið. Það er rétt sem kom hér fram að Evrópusambandið vill losna undan þeim tvíhliða samningum sem það hefur þegar gert, t.d. við Sviss. Nokkur ríki hafa áhuga á því að gera viðskiptasamninga við Evrópusambandið. Ein af þeim leiðum sem ríkjunum hefur verið bent á er að gerast aðilar að samningnum við Evrópska efnahagssvæðið, að EES-samningnum. Þetta eru ríki eins og Andorra svo eitthvað sé nefnt.

Menn hafa líka talað hér um allsherjarúttekt á samningnum. Ég get í rauninni alveg tekið undir að það væri ágætt að meta samninginn. Við höfum hins vegar fyrir framan okkur tæplega þúsund blaðsíðna skýrslu sem Norðmenn létu gera sem varpar býsna góðu ljósi á þennan samning. Ég held að við getum heimfært töluvert úr henni upp á okkur. Ég er ekki viss um að það sé rétt, ég mun láta taka það saman, að Norðmenn hafi náð betri árangri en við nema ef menn meta það sem árangur að standa gegn tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu og falla undir EES-samninginn.

Það hafa orðið slys. Raforkutilskipunin sem hér hefur verið nefnd, fráveitutilskipunin og væntanlega innstæðutilskipunin sem hv. þm. Guðlaugur Þór nefndi. Þetta er alltaf spurning. Getum við á einhverju stigi komið í veg fyrir svona slys? Ég held að það sé rétt sem kom meðal annars fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að við þurfum að standa okkur betur á fyrri stigum. Við þurfum líka að skoða ferlið hérna á Íslandi. Getur það verið einhvern veginn öðruvísi eða erum við að fylgja þessu eftir samkvæmt bókinni og getum í engu út af breytt?

Ég held að við verðum að horfa á kosti EES-samningsins. Það eru klárlega ákveðnir kostir í honum eins og viðskiptalegi þátturinn, þ.e. fyrir útflutning frá Íslandi. Menn verða líka að gera sér grein fyrir því, ef við ætlum að segja upp samningnum eða taka hann upp frá grunni, hvað það þýðir fyrir útflutningshagsmuni Íslands þegar kemur að sjávarútvegi og öðrum greinum.

Það er sjálfsagt mál að vera gagnrýnin á þennan samning og það eigum við alltaf að vera eins og með allt annað, hvernig hann hefur þróast. Þetta er orðinn gamall samningur. Það hafa orðið kynslóðaskipti, ekki bara á Íslandi heldur líka innan Evrópusambandsins í kommissjóninni þar sem sýslar með þennan samning. Kannski þurfum við að setjast niður með þessu fólki og rifja upp söguna, hvað það er og af hverju Ísland gat ekki tekið upp ákveðna hluti o.s.frv.

Ég vil að endingu benda á eitt sem er nokkuð athyglisvert. Nýja norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara sömu leið og ríkisstjórn Íslands, þ.e. að leita leiða til þess að styrkja veru sína í Brussel til að geta fylgst betur með og haft meiri áhrif á fyrri stigum á þennan samning eða það sem þaðan kemur.