143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

77. mál
[16:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hæstv. ráðherra skilur þetta eins og ég, en þá hefði hann átt að skrifa þann skilning í þingsályktunartillöguna sem liggur fyrir. Þetta er einfaldlega ekki ljóst. Ég geri mér fulla grein fyrir því að margar af þeim þingsályktunartillögum sem varða EES eru mikið torf. En þessa skil ég ekki. Ég ætla ekki að þreyta ráðherrann með því að spyrja hann út í efnisleg smáatriði. Ég hef þegar sagt að þetta er mikil framför fyrir listflytjendur, en ég á gersamlega ómögulegt með að skilja hvað er átt við með að listflytjendur byrji með „hreint borð“ þegar 50 árunum sleppir. Ég skil þó röksemdina á bak við það. Margir sem byrja að fremja list eru mjög ungir og þeir verða sem betur fer margir mjög gamlir og verið er að lengja verndina sem þeirra flutningur nýtur.

Að öðru leyti skil ég ekki sumt í þessu og skil ekki heldur hlutverk ríkisins. Það skiptir ekki meginmáli. Örugglega verður það einhvern tímann skýrt. Ég ætla ekki að gera eins og hæstv. ráðherra gerði stundum þegar hann var í mínum sporum, fulltrúi síns flokks í utanríkismálanefnd. Þegar hann vildi eiga góðan eftirmiðdag spurði hann þáverandi utanríkisráðherra grannt út í smáatriði í ýmsum tilskipunum sem hann flutti hér — og fékk alltaf svar. Ég ætla ekki að spyrja út í þetta.

Þetta skiptir máli. Hins vegar mátti ráða af máli hæstv. ráðherra að verndin næði til þeirra sem gæfi út hjá þeim sem bæði gæfu út hljómplötur, geisladiska og stafræna tónlist. Ég get fullvissað hv. þingmann um að í því umhverfi sem við lifum í dag er hægt að benda á aðila sem gefa út músík án þess að gefa út á hljómplötum.