143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

greiðsluþjónusta.

9. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason og Óttarr Proppé.

Frumvarpið varðar fyrst og fremst 47. gr. laganna, nánar tiltekið 3. mgr. hennar sem hljóðar svo:

„Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.“

Í samskiptum við greiðsluþjónustuveitendur hefur komið fram að sumir þeirra leggja þann skilning í lagagreinina að söluaðilum sé óheimilt að krefja viðskiptavini sína um gjald vegna greiðslu með kreditkorti. Greiðsluþjónustuveitendur kunna að hafa fylgt þessu banni eftir í viðskiptaskilmálum sínum við söluaðila. Söluaðili sem afhendir vöru eða þjónustu gegn greiðslu með kreditkorti fær ekki peninga í sínar hendur fyrr en eftir um 20 daga sem veldur honum ýmsum kostnaði. Söluaðili getur reyndar samið við greiðsluþjónustuveitanda um að fá kreditkortagreiðslur til sín strax, en þá verður söluaðili að borga greiðsluþjónustuveitanda gjald sem getur verið á bilinu 0,5%–3%. Vegna ákvæða gildandi laga geta söluaðilar ekki innheimt þennan kostnað af þeim sem greiða með kreditkortum. Söluaðilar hafa því neyðst til að velta kostnaðinum við kreditkortagreiðslur út í hið almenna verðlag. Ranglætið við þetta fyrirkomulag er að þeir sem staðgreiða þurfa einnig að bera kostnað af 20 daga greiðslufresti og komast ekki hjá því. Í raun er hvatinn til að staðgreiða orðinn enginn. Neytendur sem staðgreiða eru í reynd að afþakka 20 daga lán sem þegar er innifalið í verðinu. Neytendur eiga í raun ekki þann valkost að forðast kostnaðinn.

Nái frumvarpið fram að ganga verður söluaðilum frjálst að innheimta eðlilegan kostnað af þeim sem greiða með kreditkortum. Söluaðilar munu þá ekki lengur þurfa að fella þann kostnað inn í allt almennt söluverð. Í stað þess að almennt verð miðist við 20 daga greiðslufrest eins og nú tíðkast getur hið almenna verð þá miðast við staðgreiðslu. Almennt verðlag getur því lækkað sem því nemur. Hvort lækkunin skilar sér svo að fullu til neytenda mun ráðast af samkeppni og aðhaldi neytenda sjálfra.

Við vinnslu frumvarpsins var leitað fordæma hjá nágrannalöndum okkar, aðallega í Danmörku og Bretlandi. Í báðum þessum löndum er söluaðilum frjálst að leggja gjald á kreditkortagreiðslur. Fram til ársins 1991 höfðu greiðsluþjónustufyrirtæki í Bretlandi einmitt bannað söluaðilum að innheimta gjald af þeim sem greiddu með kreditkortum. Þá úrskurðaði samkeppnisstofnun Bretlands að í því fyrirkomulagi fælist óæskileg samkeppnishindrun. Í kjölfarið var lögum breytt í þá átt sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Árið 2011 innleiddu Bretar nýja löggjöf um greiðsluþjónustu sem byggði á tilskipun Evrópusambandsins. Við þá innleiðingu var frelsi söluaðila til að leggja gjald á kreditkortagreiðslur varðveitt og er í þessu frumvarpi litið til þeirrar útfærslu.

Samanburður á kreditkortanotkun á Íslandi og í nágrannalöndunum sýnir mjög afgerandi mun. Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi er kreditkortavelta aðeins lítið brot af debetkortaveltu en hér á landi hefur kreditkortaveltan verið hærri en debetkortaveltan. Hér er kreditkortanotkun því margfalt meiri en í þessum löndum og má telja líklegt að einhver hluti skýringarinnar felist í því að hér er kostnaður vegna kreditkortagreiðslu innifalinn í vöruverðinu og neytendur ekki upplýstir um hann.

Ef álag vegna 20 daga greiðslufrests yrði tekið út úr öllu almennu verðlagi, þótt ekki væri nema á hluta markaðarins og þótt ekki væri nema um 1–2%, mundi sú lækkun hafa áhrif til að bæta kjör neytenda og heimila. Almenn lækkun á verðlagi mundi fela í sér aukningu á kaupmætti ráðstöfunartekna. 1–2% lækkun á heildarútgjöldum heimilanna í landinu mundi jafngilda lækkun um 3–5 milljarða á ári, þ.e. sem nemur 30–50 þús. kr. að meðaltali á heimili. Lækkun almenns verðlags gæti einnig haft áhrif til lækkunar á neysluvísitölu. Hvert prósentustig í lækkun neysluvísitölu leiðir til um 14 milljarða kr. lækkunar á verðtryggðum skuldum heimilanna í landinu.

Til að setja þessa upphæð í samhengi mundi hún samsvara meðaltalslækkun á skuldum upp á hátt í 300 þús. kr. á heimili sé miðað við að skuldug heimili séu 50 þús. talsins. Þessar tölur eru mjög gróft áætlaðar.

Verði frumvarpið að lögum munu söluaðilar öðlast frelsi til þess að verðleggja vörur sínar án greiðslufrests og þannig geta boðið þeim sem staðgreiða upp á lægra verð en áður. Eins og dæmin sýna getur hvert eitt prósent í lækkun verðs skipt heimilin talsverðu, bæði hvað varðar kaupmátt og lækkun skulda. Neytendur og samtök þeirra þurfa að hafa þetta í huga og ávallt veita söluaðilum aðhald. Hvert prósent skiptir máli. Með frumvarpinu standa vonir til þess að neytendur verði betur upplýstir um þann kostnað sem fylgir því að nota kreditkort. Hvati til skuldsettrar neyslu mun þar með minnka og vonandi leiða til aukinnar ráðdeildar.

En víkjum nú að einstökum greinum frumvarpsins.

Í 1. gr. er lagt til að 3. mgr. 47. gr. laga nr. 120/2011 verði felld niður. Hún hljóðar svo:

„Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.“

Í stað 3. mgr. 47. gr. laganna er lagt til að komi fjórar nýjar málsgreinar.

Í fyrsta lagi er lagt til að þau gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi krefur notanda greiðsluþjónustu um vegna greiðsluþjónustu skuli vera í eðlilegu samræmi við þann kostnað sem greiðsluþjónustuveitandi hefur af veitingu þjónustunnar

Í öðru lagi er lagt til að greiðsluþjónustuveitanda verði óheimilt að setja söluaðilum reglur um verðlagningu með tilliti til ólíkra greiðslumiðla.

Í þriðja lagi er lagt til að viðtakanda greiðslu sé óheimilt að krefja greiðanda um hærra gjald vegna notkunar greiðslumiðils en nemur því gjaldi sem viðtakandi greiðslu greiðir til greiðsluþjónustuveitanda. Reglunni er ætlað að koma í veg fyrir að viðtakandi greiðslu hagnist á notkun greiðslumiðils.

Í fjórða lagi er lagt til að viðtakanda greiðslu sé aðeins heimilt að krefja greiðanda um gjald vegna notkunar greiðslumiðils þegar greiðandi hefur verið upplýstur um gjaldtökuna áður en tekin er ákvörðun um greiðslu. Reglunni er ætlað að tryggja gagnsæi í viðskiptum. Þannig er gert ráð fyrir að greiðendur verði ávallt upplýstir um að þeir muni greiða gjald fyrir notkun tiltekins greiðslumiðils. Á grundvelli þeirra upplýsinga geta svo neytendur tekið ákvörðun um hvaða greiðslumiðil þeir kjósa að nota.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2014. Það kann að virðast naumur tímafrestur en þá ber að hafa í huga að til þess að uppfylla lögin þurfa sum greiðsluþjónustufyrirtæki að fella út úr samningum sínum við söluaðila þau ákvæði sem banna söluaðilum að innheimta gjald vegna kreditkortagreiðslna. Gera má ráð fyrir að söluaðilar muni þurfa lengri tíma til að uppfæra sölukerfi sín áður en unnt verður að reikna út og leggja á gjald vegna greiðslu með kreditkorti. Frumvarpið leggur hins vegar hvorki skyldu á söluaðila í þeim efnum né setur söluaðilum einhver tímamörk. Gildistaka laganna um áramót ætti því ekki að valda söluaðilum erfiðleikum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.