143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

35. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get alveg deilt því með hv. þingmanni að þetta mál er gott og það mun ekki leysa allan vanda. Við þurfum ekkert að fara heim og við erum ekki búin ef við samþykkjum að koma þessu í framkvæmd. Síðan getum við rætt fjárlagafrumvarpið. Ég er ekki sammála greiningu hv. þingmanns á því, þvert á mót. Ég held að ef við ætlum að taka eitthvað í fjárlagafrumvarpinu sem einkennir það sé það lagfæring á kjörum öryrkja og aldraðra og sem betur fer almennings líka en við getum rætt það og munum örugglega gera seinna.

Ég held og það er staðföst sannfæring mín, sagan sýnir það, að mikil umsvif á þessu sviði, sem felst í lækkun á verði, skapi aukin verðmæti. Það skapar fleiri störf og það er nokkuð sem er grunnurinn að velmegun hér á landi sem og annars staðar. Ég sé fyrir mér að ef við vinnum þetta eins og maður mundi vilja sjá værum við að reyna að ná því markmiði, ná margvíslegum markmiðum. Eitt þeirra er að lækka verð til þeirra sem þurfa á vörunum að halda en líka að skapa hér fleiri störf. Ef það er gott að versla á Íslandi munu ekki bara Íslendingar versla meira heldur líka þeir sem hingað koma, ef það er hagstætt. Þess vegna erum við að fara til annarra landa, vegna þess að það er hagkvæmt að versla þar.

Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það er vegna þess að viðkomandi þjóð setti sér það markmið að vera samkeppnishæf í verði og reyna að draga einstaklinga eins og Íslendinga til sín og tekst það oft mjög vel.