143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þingmenn úr nokkrum stjórnmálaflokkum á Alþingi hafa lagt fram frumvarp um nýjan Landspítala. Það er fagnaðarefni að menn úr ólíkum flokkum, bæði hægra megin og vinstra megin, sameinist um þetta verkefni en það hrópar orðið á skýringar hvað veldur andstöðu forsætisráðherra og einstakra þingmanna Framsóknarflokksins við áform um nýjan Landspítala. Mikilvægi þess að í uppbyggingunni sem fram undan er séu heilbrigðismálin í forgangi og að höfuðsjúkrahús okkar, Landspítalinn, búi við viðunandi húsnæðiskost er svo knýjandi úrlausnarefni að það hlýtur að verða að krefja flokk forsætisráðherra og forsætisráðherrann sjálfan skýringa á því hvers vegna hann stendur gegn þessu þjóðþrifamáli.

Það er algjörlega augljóst að við þurfum að leggja okkur öll fram um það hér á þinginu að forgangsraða fjármunum og verkefnum þannig að við séum samkeppnishæf um heilbrigðisstarfsfólk. Það er alveg ljóst að við munum ekki á næstu árum keppa í launum við land eins og t.d. Noreg, en það að hafa hér fyrsta flokks aðstæður og aðbúnað á Landspítalanum og hefja þetta verkefni er yfirlýsing okkar sem þjóðar þvert á flokka um að við ætlum að sýna metnað í heilbrigðismálum og verja fjármunum eftir föngum til þess að byggja hér upp og bæta úr því sem aflaga hefur farið á árunum eftir hrun.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra og hv. þingmenn Framsóknarflokksins til þess að endurskoða afstöðu sína í þessu efni og til þess að við hér á Alþingi í öllum þeim sex stjórnmálaflokkum sem hér sitja getum sameinast um það að hefja okkur yfir flokkadrætti og flokkslínur og hrinda af stað þessu brýna þjóðþrifamáli sem bygging nýs Landspítala er.