143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í umræðum um störf þingsins til að vekja athygli á ánægjulegri frétt frá því í gær sem fór þó ekki mjög hátt í fjölmiðlum. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi sínum tillögu frá borgarfulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þess efnis að leggja sem nemur 100 kr. fyrir hvert leikskóla- og grunnskólabarn borgarinnar til stuðnings flóttabörnum í Sýrlandi.

Flóttamannavandinn í Sýrlandi er einhver sá alvarlegasti sem alþjóðasamfélagið hefur staðið frammi fyrir. Í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu búa til að mynda nú um 130 þúsund manns, meiri hluti þeirra börn, þar af 30 þúsund börn fjögurra ára eða yngri. Það segir sitt um umsvif þessa verkefnis að á hverjum degi dreifir UNICEF 4,2 milljónum lítra af vatni í búðunum.

Það er í einu orði sagt hörmulegt að horfa upp á stríðið í Sýrlandi sem engan endi virðist ætla að taka, ekki hvað síst vegna þess að stórveldi heimsins og áhrifaríki á svæðinu kynda undir ófriðarbálinu með vopnasölu og hernaðarstuðningi. Þjóðir heimsins verða hins vegar að axla ábyrgð á því fólki sem nú á um sárt að binda. Samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur verður vonandi öðrum sveitarfélögum hvatning til að gera slíkt hið sama sem og einstaklingum og ríkisvaldinu. Ég vil því hvetja hv. þingmenn sem sæti eiga í fjárlaganefnd til þess að hugsa til flóttafólksins í Sýrlandi í komandi fjárlagavinnu og ráðstafa fé því til stuðnings.