143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Björk Vilhelmsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til þess að tala um brýna þörf á uppbyggingu hjúkrunarheimila í Reykjavík. Vandi Landspítalans hefur verið ræddur í þessum sal á undanförnum árum sem og í dag. Sá vandi er að hluta til vegna skorts á hjúkrunarrýmum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Nú á að opna hjúkrunardeildir á Vífilsstöðum til bráðabirgða og er það gott, en sú aðgerð leysir einungis vandann í eitt til tvö ár að mati sérfræðinga. Á þeim tíma er mikilvægt að fara í þá uppbyggingu sem liggur fyrir að fara í.

Reykjavíkurborg og sjómannadagsráð sem rekur Hrafnistuheimilin hafa frá árinu 2008 undirbúið hjúkrunarheimili að Sléttuvegi, vestan Borgarspítalans. Skipulagið er klárt sem og fjármögnun framkvæmda og Hrafnista er að fara að byggja þjónustumiðstöð á svæðinu í samvinnu við borgina sem einnig mun þjónusta hjúkrunarheimilið.

Ég er ekki bara að tala fyrir þessu vegna vanda Landspítalans. Í Reykjavík er alvarlegur skortur á hjúkrunarrýmum þrátt fyrir að hér hafi þróast fyrirmyndarheimahjúkrun og -heimaþjónusta. Fyrirmyndarheimaþjónustan kemur fram í beinhörðum tölum sem hægt er að reikna til fjár. Færri Reykvíkingar sem eru eldri en 80 ára dvelja á hjúkrunarheimilum samanborið við nágrannasveitarfélögin og legudagar Reykvíkinga eru færri á Landspítalanum þar sem hægt er að útskrifa fólk fyrr.

Í dag er staðan sú að samkvæmt gögnum frá færni- og heilsufarsmatsnefnd Reykjavíkur eru 116 á bið eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu, þar af 84 í Reykjavík.

Til þess að bjóða upp á sömu þjónustu og við höfum í dag þarf að byggja 667 rými til ársins 2025, þar af 312 til ársins 2020. Við getum ekki beðið. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra Guðbjartur Hannesson skrifaði undir viljayfirlýsingu við borgina í apríl sl. og ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að uppfylla þá viljayfirlýsingu því að hún er mjög mikilvæg til þess að við getum farið í þessi mál.

Við erum tilbúin (Forseti hringir.) og við förum vonandi af stað sem allra fyrst.