143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Samkvæmt 51. gr. þingskapa er gert ráð fyrir því að fjórðungur þingmanna í þingnefnd geti óskað eftir því að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum út af tilteknum málum sem nefndin hefur til umfjöllunar eða nefndin hefur kosið að taka upp að eigin frumkvæði. Þá skal stjórnvaldið verða við þeirri beiðni nefndarinnar.

Þarna er með skýrum hætti kveðið á um hvernig einstakir þingmenn geta brugðist við við svona aðstæður. Það er ekki gert ráð fyrir því að um sé að ræða svar við beiðni einstakra þingmanna heldur að sú beiðni gangi í gegnum nefndina. Forseti vill því vekja athygli á því að málið sem er um að ræða, fjárlögin, er auðvitað til meðhöndlunar í fjárlaganefnd og það ákvæði þingskapalaganna vísar þá væntanlega til þess að fjórðungur þingmanna í viðkomandi nefnd gæti óskað eftir því fá þessi gögn í hendur.