143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var hressilegt að hlusta á hv. þm. Ásmund Friðriksson. Hann var með jákvæðan tón og ég tek undir það að náðst hefur frábær árangur hjá íslenska knattspyrnulandsliðinu, karlalandsliðinu, og er hann í samræmi við önnur íþróttaafrek okkars fólks núna. Hv. þingmaður gleymdi hins vegar að við vorum að hjálpa vinum okkar Bandaríkjamönnum sérstaklega, við sendum Aron Jóhannsson til að skora úrslitamarkið í leik sem þeir spiluðu í gærkvöldi þannig að hróður okkar fer víða. Ef við getum staðið okkur jafn vel og íþróttamennirnir hér á hv. þingi erum við í góðum málum. Svo skilst mér að RÚV hafi lofað að gera það aldrei aftur að slökkva og setja á einhverjar skjáuglýsingar þegar menn eru í mikilli sigurvímu.

Ég vil líka hrósa stjórnarandstöðunni. Við erum að sjá allt annan svip á þessu fólki. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem vildi ekki að við fengjum að sjá Icesave-samninginn vill fá að sjá allt núna. Hugsið ykkur breytinguna á nokkrum mánuðum. Þetta er algjörlega frábært.

Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir ræðir um mjög mikilvæg gögn sem mér finnst ekki bara mikilvægt að stjórnarandstaðan fái að sjá, sérstaklega Vinstri grænir, heldur líka mikilvægt að hv. þingmenn lesi það allt saman. Ég upplýsi það að ég er búinn að taka þetta saman, virðulegi forseti, og ætla að koma því sjálfur til ykkar vegna þess að það er ómögulegt að sjá ykkur svona ósátt út af þeim (Gripið fram í.) málum. Það er ekkert leyndarmál, þetta eru gögn sem meðal annars þið létuð búa til í síðustu ríkisstjórn (Gripið fram í.) og það er mjög mikilvægt að þið skoðið gögnin sem þið settuð mikla fjármuni í að gera. Ég held að það verði stórskemmtilegt í annars mjög skemmtilegu nefndastarfi í hv. fjárlaganefnd að ræða þau mál í smáatriðum og það að Vinstri grænir skuli hafa fengið svona mikinn áhuga á hagræðingu í ríkisrekstri er alveg sérstakt gleðiefni sem við hljótum öll að fagna.

Virðulegi forseti. Hér er allt á réttri leið, íslenska landsliðið er jafnvel á leiðinni á heimsmeistaramótið og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vill koma öllum upplýsingum áleiðis. Það er mikil breyting.