143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvar er hægt að hagræða? Í dómstólum eru mörg mál sem okkur finnst kannski ekki merkileg. Það eru svokallaðar áritaðar áskorunarstefnur, þetta eru útivistarmál, þetta eru mál sem engar varnir eru í, sem áður voru unnin af löglærðum fulltrúum. Það var ástæða fyrir því að þetta var gert, dómur gekk í Evrópudómstólnum að þetta væri dómsstarf og það þyrfti dómara til að koma að því. En við gengum kannski of langt í því að laga þetta þannig að þetta var alfarið komið á könnu dómara, þessi mál, sem eru tímafrek og mikið magn, en eru kannski sjálfdæmd í sjálfu sér.

Menn hafa því verið að ræða það — og það hefur verið gert að hluta — að fulltrúar hafi meiri möguleika að vinna ýmis störf sem dómarar hafa gert áður. Auðvitað eru 86 milljónir talsverður peningur — og talandi um laun dómara, þau eru nefnilega hærri en okkar, já. Þetta er náttúrlega krísa á mínu heimili að konan er launahærri en eiginmaðurinn. Þetta er líka huglægt og getur verið mjög erfitt fyrir marga menn að þola en þar sem ég er nú landsþekktur femínisti lifi ég þetta af, það er nú bara eina ástæðan fyrir því.

Hins vegar er það bara þannig, og ég hef líka orðið var við það, að það hefur verið aukið álag á dómara. Það þarf að koma í veg fyrir að þeir séu undir slíku álagi að þeir geri of mörg mistök, því að mistökin þarna eru mjög dýrkeypt, eins og hjá okkur líka.